27.12.2011 | 13:06
Bölbænir (og betri bænir) á aðventu
Þegar ég var barn vann pabbi vaktavinnu í mörg ár. Fyrstu jólin fékk hann mjög hagstæða vaktatöflu fyrir jólin, þar sem hann var með börn á ákveðnum aldri. En svo kom að því að ekki var sanngjarnt gagnvart hinum að taka tillit til þess lengur - og þá fékk hann þá óhagstæðustu vaktatöflu sem hugsast gat: Vinna á aðfangadagskvöld og allar þær stundir sem við vildum helst hafa hann heima.
Og hvað gerir góða stelpan ég þá? Jú eftir smá sjálfsvorkunargremjukast lagðist ég á bæn: Bað Guð um að pabbi yrði veikur, svo hann kæmist ekki í vinnu um jólin.
Daginn eftir fékk pabbi - þessi hörkutöffari og hraustmenni sem aldrei varð misdægurt - svo rosalegt brjósklos í bakið, að hann gat engan vegin hreyft sig. Lifði næstu daga á sterkum verkjatöflum en gretti sig samt af kvölum þegar hann var studdur út í bíl og keyrður í sjúkraþjálfun og nudd.
Þið getið rétt ímyndað ykkur samviskubitið sem lítil "saklaus" stúlka fékk. Auðvitað var þetta allt mér að kenna, enda er ég alltaf bænheyrð.
Það var bara eitt að gera í stöðunni: Leggjast aftur á bæn.
Ég vissi að þeir áttu að vera 3 saman á vakt - og yfirleitt var það rólegt á aðfangadagskvöld að undir eðlilegum kringumstæðum hefðu þeir átt að geta skipst á að skreppa heim. En fyrst pabbi var veikur, voru öngvar líkur á að hinir 2 gætu skroppið heim. Ekki nóg með að ég bæri ábyrgð á þessum ægilegu kvölum pabba míns, - heldur var ég líka búin að eyðileggja aðfangadagskvöldið fyrir tveimur öðrum fjölskyldum.
Mér hafði verið tjáð að öngvar líkur væru á að pabba batnaði fyrir jól. En nú var samviskubitið svo stórt að ég bað Guð af öllu hjarta um að honum skánaði nógu mikið til þess að hann gæti skroppið í vinnuna á aðfangadagskvöld til að hinir mennirnir gætu skroppið heim.
Það gekk eftir. Og það sem ég - þessi mikla pabbastelpa - var hamingjusöm, á meðan pabbi - þessi mikli jólakall - var í vinnunni á aðfangadagskvöld.
Njótið lífsins gott fólk.
Athugasemdir
Yndisleg saga Laufey mín og vissulega varstu bænheyrð þarna hver svo sem var að hlusta.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 27.12.2011 kl. 14:59
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.