7.3.2008 | 10:07
Að tala þvert um hug sér. - Eða ekki.
Eitt af því góða við eiginmanninn, er að honum finnst ég alveg ofboðslega skemmtileg. - Og fyndin. Sérstaklega þegar ég ætla mér alls ekki að vera það. Honum finnst t.d. mjög fyndið þegar ég tala þvert um hug mér. - Sem ég geri að sjálfsögðu aldrei. Tökum samt tvö dæmi.
Hann benti mér á það núna nýlega, að það væri örugglega gott fyrir mig að hlusta á BBC, ef ég vildi bæta enskukunnáttuna. Það væri ekki nóg að lesa ensku og glósa, - ég þyrfti líka að hlusta. Hann hnýtti ekki aftan við þeirri staðreynd, að ég væri alltaf að glósa sömu orðin. Hann hafði heldur engin orð um, að ástæða þessarar hugmyndar hans hefði eitthvað með enskuframburð minn að gera, (börnin mín hefðu hins vegar ekki hlíft mér við slíkri athugasemd).
Nú ég tók mark á honum. Næsta mánudag hlustaði ég á BBC alla Reykjanesbrautina. Þegar ég kom heim, sagði ég honum að enskuskilningur minn væri greinilega mjög skilyrtur. Alla Reykjanesbrautina hefði verið talað mjög mikið um ástandið í Afganistan, - og ennþá meira um forkosningarnar í BNA. - Og ég skildi ekki eitt einasta orð!! Svo þegar ég var komin inn í borgina var farið að tala um misnotkun kaþólskra presta á börnum og unglingum. Og þá skildi ég allt í einu hvert einasta orð. Enskuskilningur minn hefur örugglega heilmikið með áhugasvið mitt að gera.
Þá fór minn að skellihlæja: Laufey þú ert svo fyndin. Hvernig í ósköpunum geturðu haft allt þetta eftir, um ástandið í Afganistan og forkosningarnar í BNA, ef þú skildir ekki eitt einasta orð? Hmm, - þú meinar.... stundi ég upp.
Í sömu viku ætlaði ég að kaupa sturtusápu af ákveðinni gerð, eftir að hafa klárað þá sem tengdadóttirin gleymdi hjá mér. Það var því miður ekki til samskonar brúsi, en samskonar sturtusápa var hins vegar til í stærri brúsa með pumpu. Ég keypti þann stóra, en þar sem ég get ekki haft stóran pumpubrúsa með mér í leikfimina, ákvað ég að pumpa sápu úr þeim stóra yfir í þann litla. Það var smá vesen - þurfti auðvitað lagni og leikni til, sem ég auðvitað beitti af minni alkunnu snilld. Þar sem ég stend við eldhúsborðið, langt komin með að fylla þann litla, - kemur eiginmaðurinn, opnar ruslaskápinn og sér þar tóman lítinn saltbauk efst í ruslinu. "Hva - hentirðu þessum fína saltstauk? Ég ætlaði að kaupa nýtt salt og setja yfir í þennan stauk, hann er svo góður", sagði maðurinn. "Hvaða rugl er þetta?" sagði ég þá. "Maður kaupir ekkert stóran saltstauk og hellir yfir á einhvern minni. Maður bara notar þann stauk sem maður kaupir" Eitt augnablik stóðum við bæði og störðum á hendurnar á mér pumpa yfir í litla brúsan. Svo fórum við auðvitað að skellihlæja.
Ég tala samt aldrei þvert um hug mér.
Litla brúsanum með sturtusápunni var stolið frá mér í leikfiminni daginn eftir.
Góða helgi.
Athugasemdir
Þetta er alveg óborganleg færsla Lubba mín. Bestu áhrifin eru náttúrulega að hafa myndina af þér fyrir augunum meðan maður les þetta, ég sé þig ljóslifandi fyrir mér í þessum atriðum, og það er óborganlega fyndið
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 7.3.2008 kl. 11:37
Ylfa Mist Helgadóttir, 7.3.2008 kl. 12:04
Við vitum sko alltaf betur en mennirnir okkar .. eða þannig. .. Sérstaklega þegar um er að ræða saltstauka og annað svona sem notað er í eldhúsið!
Fúlt þegar öllu er stolið! En skárra að það var lítill brúsi sem fór en ekki sá stóri
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 8.3.2008 kl. 13:09
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.