Páskafrí.

Laxá í KjósMikið sem ég hef alltaf skilið Línu langsokk, sem vildi ganga í skóla, til að fá jólafrí, páskafrí og sumarfrí. Ég hef heyrt nokkra sem ekki tilheyra kennarastétt, segja að kostirnir við kennarastarfið séu þrír; - jólafrí, páskfrí, sumarfrí, segja sumir, - júní, júlí, ágúst, segja aðrir.

Ég er tónlistarkennari, - og vil meina að kostirnir við mitt starf séu fleiri og stærri en ofangreindir. Ég viðurkenni þó að þessi frí eru UNAÐSLEG. Og alltaf jafn kærkomin. Og við (þeir kennarar sem sinna sínu starfi almennilega) erum svo sannarlega vel að þeim komin. Ég segi bara fyrir mig, - ég er alltaf komin í svo mikla þörf fyrir þessi frí, stundvíslega þegar þau mæta á staðin, að ég hefði ekki getað kennt korter í viðbót.

Skuggahjón 2Mig langaði til Kúbu um páskana. Mig er búið að langa til Kúbu í mörg ár. Og þegar ég uppgötvaði hvað páskarnir eru óvanalega snemma í ár (áreiðanlegar heimildir herma, að Góupáskar ekki aftur fyrr en eftir 152 ár), þá ákvað ég að nú væri loksins komið að því. Mig hefur alltaf dreymt um að komast til útlanda meðan enn er vetur hér, en vor eða jafnvel sumarveður í útlandinu. En þá þarf þetta endilega að vera veturinn sem ferðaskrifstofan sem hefur séð um Kúbuferðir, ákvað að sleppa þeim. Ég fór á leitarvefi, - og komst að raun um að besta lausnin væri að ferðast gegn um París til Havana - og það kostaði litlar 550 þúsund krónur fyrir manninn, bara flugið. Þ.e. á aðra milljón fyrir okkur hjónin samkvæmt gengi á þorranum. Ætli það sé ekki komið á þriðju milljón núna. Sama og þegið.

Þá ákváðum við að fara bara til einhverrar annarar borgar, þar sem ganga mætti út frá góðum útlenskum hita. Barcelona var efst á blaði. Þá kom í ljós, að fleiri höfðu greinilega fengið sömu hugmynd og ég, en verið tímanlega í því (sem er ekki mín sterkasta hlið). Það var allt uppselt sem okkur fannst koma til greina. 

Undir Hafnarfjalli, klaki og greinÞá var að athuga með sumarbústað. En hinir kennararnir voru auðvitað löngu búnir að bóka þá líka (geta þessir kennarar ekki verið heima hjá sér, þegar mig langar að heiman?).

Svo við enduðum á rúmlega sólarhringsferð í Hvalfjörð og Borgarfjörð. Og sú ferð var yndislegri en mig hefði getað grunað. Við fórum í þrjár langar gönguferðir; upp með Laxá í Kjós, í Vatnaskógi og á ströndinni undir Hafnarfjalli (myndir í sömu röð). Gönguferðir í íslenskri náttúru finnst mér alltaf unaðslegar, en það sem gerði þessar ferðir enn unaðslegri en oftast, var lognið. Í Vatnaskógi var blankalognið svo ALGJÖRT, að ýktustu Ísfirðingar hefðu viðurkennt það sem slíkt. Og undir Hafnarfjalli, sem er viðurkennt rokras...., voru í mesta lagi 1 eða 2 metrar á sekúntu.

Restin af páskafríinu fer svo í skipulögð og óskipulögð huggulegheit hér heima og í næsta nágreni. Og við ætlum svo sannarlega að njóta þess. 

Það er örugglega rok í Barselónu og á Kúbu.

Gleðilega páska. 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

GLEÐILEGA PÁSKA  ..

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 19.3.2008 kl. 10:51

2 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Jamm örugglega rok og rigning í Barcelona og á Kúpu mikið rétt Laufey mín.  Njóttu þess að eiga fríið þitt, það verður ekki af þér tekið, þó ferðirnar og sumarbústaðirnir hafi farið fyrir bí.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 19.3.2008 kl. 12:06

3 Smámynd: Þórdís Einarsdóttir

Hver vill fara til Kúbu eða Barþelónu þegar hann getur notið útsýnisins úr rauða húsinu við hafið?

Gleðilega páska.

Þ 

Þórdís Einarsdóttir, 19.3.2008 kl. 13:27

4 identicon

Veistu það Laufey mín að ég hef það fyrir satt (Birna frænka mín í Hvassaleitinu sagði þetta alltaf) að það sé ekki gott að vera í útlöndum núna. Það er allt svo dýrt og svona.... kalt og fullt af skrítnu fólki.

Njóttu páskana og skólafrísins, það ætla ég að gera

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 20.3.2008 kl. 15:49

5 Smámynd: Snorri Bergz

Góupáskar koma aftur á næsta ári. Þú kaupir bara nógu mörg páskaegg frá....

 hmm...

Nóa Síríus?!

Snorri Bergz, 26.3.2008 kl. 08:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband