31.3.2008 | 09:37
Veisluhelgin mikla.
Mamma varð sjötug 25. mars síðastliðinn. Hún var að heiman þann dag, fór með systur sinni í leikhúsferð upp í Borgarnes. En við systkinin létum ekki hafa af okkur góða afmælisveislu - og héldum "surprise-party" fyrir hana á laugardaginn. Leigðum sal og buðum fullt af vinum og ættingjum.
Eins og mín var von og vísa, lét ég mér ekki nægja að baka kökur og laga kaffi, - ég þurfti auðvitað að troða upp með nett uppistand, þar sem ég gerði góðlátlegt grín að okkur mæðgunum. Ég var svo heppin að mamma móðgaðist ekki vitund (ekki að það hafi verið líkt henni), heldur fannst henni þetta bara skemmtilegt og bráðfyndið. Vonandi að einhverjum fleirum hafi þótt það.
Ég heyrði einhvern spyrja mömmu í miðri veislu, hvort hana hafi ekki grunað neitt. "Mér fannst bara skrýtið að enginn skyldi koma" sagði mamma þá. Aumingja mamma, sat heima frá þriðjudegi til laugardags - og bjóst við að vinir og ættingjar streymdu í hrönnum í afmælisheimsókn, - en enginn kom. Okkur hafði ekki hugkvæmst að gera ráð fyrir þessu. En hún var alsæl og himinlifandi með veisluna.
Úr afmælisveislunni þeystum við hjónin beint á árshátíð hjá vinnustað eiginmannsins. Næstum 50 manna veislu sem haldin var í heimahúsi. Góður matur, góður félagskapur, stuð og stemmning. Sungið og spilað á ýmis hljóðfæri. Ferlega gaman.
Á sunnudagsmorguninn var svo eldri stjúpsonurinn fermdur. Næstum 100 manna fermingarveisla á eftir, þar sem ég var í fyrsta sinn að hitta margt af hans móðurfólki. Dýrmæt athöfn fermingin sjálf - og mjög góður mórall í veislunni. Sérlega ánægjulegur dagur.
En nú er hversdagurinn kominn í fullan gang, eftir páskafrí og veislustúss - og alveg brjálað að gera. Best að drífa sig á kennarafund á Kaffi París - og þaðan beint í Suzuki-spilið í Njarðvíkum. Eins gott að öngvin trukkar séu að stöðva umferðina á Reykjanesbrautinni. Tek með mér góða bók til öryggis.
Lifið heil.
Athugasemdir
Sæl Laufey mín og takk fyrir síðast,
Þetta var góð veisla og frábært framtak hjá ykkur systkinum. Takk fyrir að fá að vera með. Já og innilega til hamingju með fermingardrenginn.
Eigðu góðan dag Þórunn frænka þín
Þórunn Jóhannsdóttir (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 13:57
Til hamingju með mömmu þína og öll þessi veisluhöld!
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 31.3.2008 kl. 15:13
Ja það var svo gott og gaman að gleðja hana mömmu okkar
allir svo glaðir og skemmtilegir og þá sérstaklega mamma
knús til þín .
Mallý (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 16:08
Já, þetta eru nú meiri trakteringarnar. Ég verð bara að biðja að heilsa í þessar veislur. Bið að heilsa kallinum, stjúpsonunum og Skibbu skólagrís. Var loksins að muna eftir því að hringja í ömmu rétt áðan, ekki nema sex dögum of seint.
Bjarki (IP-tala skráð) 31.3.2008 kl. 19:59
Flott hjá ykkur, og til hamingju með mömmu Laufey mín. Þetta hefur aldeilis verið skemmtileg uppákoma.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 31.3.2008 kl. 22:32
Takk elskurnar. Já Bjarki, þín var sárt saknað. Mallý og mamma söknuðu þín ennþá meira en ég.
Laufey B Waage, 1.4.2008 kl. 08:36
Knús á allt veisluliðið, hér voru veisluhöld í lágmarki sem var eiginlega kærkomin hvíld eftir páskana.
Dóra Hlín (IP-tala skráð) 1.4.2008 kl. 13:43
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.