1.12.2008 | 23:00
Gleðifréttir.
Ég horfi mjög sjaldan á sjónvarpsfréttir nú orðið. Læt duga að fletta mogganum - og hlusta af og til á yfirlitið í útvarpinu.
Kveikti þó af rælni á sjónvarpsfréttunum á meðan ég var að elda nú áðan (áður en ég rauk á tónleika). Aðallega til að fá fréttir af Arnarhóli og Bleðlabanka.
Kemur þá ekki - (hvernig snýr maður við, máltækinu; eins og þruma úr heiðskíru lofti? - Eins og glampandi sólskin úr brjáluðum byl?) - eins og gullmoli úr kolabing (hvernig var þessi? - hallærislegur?) - frétt, sem fékk mig til að taka svo trylltan gleðidans - og öskra og æpa að þvílíkri gleði og kæti, - að eiginmaðurinn sá ástæðu til að sussa á mig, - og það oftar en einu sinni (og er hann þó yfirleitt ótrúlega umburðarlyndur gagnvart mér þessi elska).
Vinstri grænir eru stærsti stjórnmálaflokkur landsins, samkvæmt nýjustu skoðanakönnunum!! .
Auðvitað á ég ekki að vera hissa. Ástandið á íslenska stjórnarheimilinu er með þvílíkum endemum um þessar mundir, að meginþorra manna er loksins ofboðið. Maður er bara orðinn svo vanur því að fólk kýs endalaust yfir sig sama ruglið af gömlum vana. En nú eru íslendingar loksins að vakna af dvala. Það þurfti mikið til.
Svo nú segi ég bara eins og Silvía vinkona okkar: Til hamingju Ísland .
Guð láti gott á vita. Vonandi verður þetta að veruleika.
Lifið heil.
Athugasemdir
Ég myndi segja demantur úr kolabing ;) Þú veist ... kol breytast í demanta við mikinn þrýsting og hita í langan tíma!
Annars langar mig að spyrja um eitt sem ég skil ekki en kannski þú vinstri græn og gáfuð, hæfileikarík og skýrleikskona mikil getir úrskýrt fyrir mér.
Niðurstöður skoðanakannana eru á þann veg að meirihluti þjóðarinnar vilji ganga í ESB.
Meirihluti þeirra sem svaraði þessari skoðanakönnun myndi kjósa Vinstri græna.
Það yfirlýst skoðun Vinstri grænna að þeir vilja ekki ganga í ESB.
Hver er rökhugsunin í þessu?
Aðalheiður (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 09:39
Ja, kannski eru þau rúmlega 30% sem vilja kjósa VG einmitt í þeim minnihlutahópi sem vill ekki ganga í ESB. En hvar eru þá sjallarnir?
Mér finnst líklegra að það séu skiptar skoðanir um þessi mál meðal flokksmanna og stuðningsmanna VG, eins og í öðrum flokkum. Þó flokkarnir séu allir með yfirlýsta stefnu í Evrópumálum þá tala þeir ekki fyrir alla sína meðlimi. Það héti fasismi, og ég held að enginn íslenskur stjórnmálaflokkur sé alveg svo slæmur .
Ég segi fyrir mína parta að það var ekki Evrópustefnan sem dró mig að VG þegar ég gerðist flokksbundin. Mér fannst allt hitt bara skipta meira máli. Síðan þá hefur vægi Evrópumálanna óneitanlega aukist, og það verður gaman að sjá hvað umræða næstu mánaða leiðir af sér.
Berglind VG (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 12:41
Hugsaðu þér bara Aðalheiður; - fyrst svona margir styðja VG þrátt fyrir yfirlýsta ESB-stefnu, - geturðu þá ímyndað þér hvað fylgið á eftir að aukast þegar þeir fatta að þeir "mega" bæði styðja ESB og VG .
En auðvitað er málið akkúrat eins og Berglind segir: Við búum sem betur fer ekki við algjöran flokkræðisfasisma. Maður þarf ekki að hafa algjörlega sömu skoðanir og flokkurinn sem maður kýs (ekki einu sinni þeir sem eru flokksbundnir). Maður einfaldlega styður þann flokk sem kemst næst manns eigin sannfæringu. Svo getur líka verið heilbrigðis- og þroskamerki að skipta um skoðun.
Laufey B Waage, 2.12.2008 kl. 13:54
Sæl Laufey mín,
Ætla ekki að taka þátt í þesssari umræðu, segi eins og konan legg það ekki á mig og ykkur!!! Get samt sagt þér að Ingibjörg Sólrún er mín kona. Bið þig fyrir það.
Eigðu góðan dag og mikið skelfing líst mér vel á 9.janúar-helgina. Hvernig eru viðbrögðin?
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 2.12.2008 kl. 14:35
Því miður eiga Sjallarnir eftir að fá sín 30-35 prósent, jafnvel þó að kosið verði í vor. Kosningamaskína Flokksins, sú magnaða mulningsvél sem aldrei bilar, á eftir að hakka þetta í sig. Hræðsluáróðurinn er strax farinn af stað og byrjaður að virka.
Bjarki (IP-tala skráð) 3.12.2008 kl. 08:48
Veiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiiii
Jenný Anna Baldursdóttir, 3.12.2008 kl. 11:19
Það er alveg ljóst að það þarf breytingar í íslensk stjórnmál. Ég vona nú að minn flokkur fái atkvæði sem upp á vantar til að leggja sitt af mörkum með fleira góðu fólki. En Vinstri grænir eru vel að þessum sigri komnir, þeim hefur mælst vel undanfarið.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.12.2008 kl. 11:08
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.