23.12.2008 | 13:43
Skemmdur matur.
Í þessum rituðum orðum er minn ektamaki staddur í hinu árlega skötuboði hjá bestu vinkonu minni. Síðustu 20-30 árin hefur vinkonan verið ötul við að suða í mér að mæta. Hún stendur í þeirri meiningu, að hún sé að bjóða upp á eitthvað unaðslega gómsætt og stórfenglegt, - og á því dáldið erfitt með að trúa því að matgæðingurinn, sælkerinn og partýljónið ég skuli ekki þiggja með þökkum þetta einstaklega góða boð.
En ég er alltaf með sama svarið á reiðum höndum. Ég borða ekki skemmdan mat, - og ég legg það ekki á mig að sitja í þessari ýldufýlu, þrátt fyrir frábæran félagsskap.
Ekki þegar ég á þess kost að njóta Þorláksmessunnar á minn persónulega hátt, þ.e. að strauja dúka og skreyta húsið á meðan ég hlusta á jólakveðjurnar í útvarpinu. Þá veit ég að jólin eru að koma. Ég sem er haldin andstöðuþrjóskuröskun gagnvart hefðum, verð að viðurkenna, að ég mundi deyja úr Þorláksmessusöknuði, ef ríkisútvarpið hætti einhverntíman með jólakveðjurnar.
En aftur að skemmda matnum. Minn heittelskaði, sem er einn jákvæðasti maður norðan Alpafjalla, stendur á því fastar en fótunum, að honum þyki ekki bara félagsskapur vinkonu minnar góður, - heldur líka skatan hennar. Vinkonan er frá Ísafirði, - og mamma hennar sendir henni skötuna - ásamt meðfylgjandi hnoðmör - að vestan. En eins og alþjóð veit, þá á ekta vestfirsk skata að vera svo kæst, að þú finnir ekki mun á vatninu og brennivíninu sem þú drekkur með ("þess vegna" drekkur minn bara vatn).
Minn heittelskaði er ekki bara jákvæður heldur alveg einstaklega tillitssamur. Algjörlega óumbeðinn gerir hann það á hverri Þorláksmessu, að hafa hreinan alklæðnað með sér í skötuboðið (þ.e. geymir hann í poka úti í bíl!!). Fer svo beint í sund, hvar hann biður um tvo skápa, - einn fyrir hreinu fötin og annann fyrir ógeðslyktandi fötin. Þegar hann kemur heim, setur hann ógeðsfötin beint í þvottavélina (áður en hann kemur upp í íbúðina til mín) og fer svo beint út á svalir með belti, skó og jakka til viðrunar.
Best að skella í sig hádegismatnum, þ.e. nýbökuðu speltbrauði eftir sjálfa mig, með gúmmolaðis-jólaostinum sem frænka mín í sveitinni var svo elskuleg að senda mér, einu sinni sem oftar (ekki orð um skemmda-mats-verkun á gúmmolaðisostinum).
Ef ég klára að skreyta fyrir friðargöngu, er aldrei að vita nema ég verki rjúpurnar í kvöld.
Njótið gleðilegra jóla elskurnar.
Athugasemdir
Sammála þér með skötuna!
Gleðileg jól, Laufey mín.
Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 23.12.2008 kl. 15:58
Laufey mín
Algjörlega ósammmála þér með skötuna, þetta er góður matur til að borða einu sinni á ári. Hér var 20 manna skötuveisla í hádeginu, svaka fjör. Persónulega finnst mér nýbakaða rúgbrauðið mitt sem ég ber fram með skötunni það besta við máltíðina.
Mótþróaþrjóskuröskun er betra orð en andstöðuþrjóskuröskun, segi nú bara svona.
jólakveðja
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 23.12.2008 kl. 22:06
Getur ekki verið að þú hafir bara lent á vondri skötu einhvern tímann í fyrndinni? Þú hefur ábyggilega lent á skemmdri skötu einhvern tímann og ákveðið að öll skata hljóti að vera skemmd.
Ég skil ekki alveg að fólk sem borðar mygluosta borði ekki svona hanteraðan mat. Þetta er í grunninn sama framleiðsluaðferðin. Og þetta er ekki skemmdur matur, bara notast við gamlar aðferðir við matvinnslu. Það sama gerir þú mamma mín þegar þú notar vambir utan um slátrið. Af hverju notarðu ekki bara plastpoka?
Að lokum vil ég segja að skatan er allra meina bót. Ég var kvefaður í gær, er það ekki lengur.
Bjarki (IP-tala skráð) 24.12.2008 kl. 09:08
Laufey þessi piltur sem þú fannst er algjör perla, segi og skrifa. Kærleiksknús til þín elskulega vinkona mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.12.2008 kl. 17:55
Kæst skata? Er þetta ekki brot á Kyoto bókuninni?
Ingibergur S. (IP-tala skráð) 27.12.2008 kl. 16:11
Alveg sammála þér hvað varðar skötuna - skemmtileg lesning!
Gleðilegt ár og takk fyrir góðar stundir á liðnum árum - bæði hjá Pétri og á blogginu!
Guðrún Markúsdóttir, 2.1.2009 kl. 11:11
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.