25.6.2009 | 11:00
Hægritun
Ég lærði vélritun - eða hraðritun eins og mig minnir að sagt hafi verið - í síðasta bekk grunnskóla. Þá var ég svo heppin að hafa lært á píanó í nokkur ár, - og píanófingrasetningartæknin nýttist mér mjög vel í vélrituninni. Á miðsvetrarprófi þurfti maður að hafa 140 slög rétt til að fá 10. - Ég var með 210 slög rétt.
Þessa tækni hef ég nýtt mér oft og mikið síðan, - við ritvél og tölvu, - en mest þó við píanóið.
En nú er bleik brugðið. Hægri höndin í fatla - alveg fram að fingrum. Og úlnliðssvæðið æpir og veinar ef ég reyni að snúa hnúunum upp. - Liggur bara á hlið, með litla fingur neðst.
Þegar nemendur mínir hafa meiðst á annari höndinni, hef ég lagt hart að þeim að vinna vel með hinni höndinni á meðan. Og nú kemur vel á vondan. Ég sem ætlaði að sitja við hljóðfærið nokkra tíma á dag í allt sumar, - ég hef engan vegin geð í mér til að vera með einhverjar vinstri handar æfingar. Ber því við að ég sé á allt öðrum stað í mínum æfingum. Nú æfi ég mig í að hugsa og sjá hljómana heildrænt, án þess að gera greinarmun á hægri og vinstri (í alvöru).
Og nú sit ég við tölvuna. Ætlaði að blogga helling nú í júní. Var komin með slatta af góðum hugmyndum, sem bíða betri tíma. Byrjaði þennan pistil til þess eins að segja ykkur hvað ég er að upplifa mig minniháttar þegar ég pikka eins og hálfviti með tilviljunarkenndum fingrum vinstri handar, - og er a.m.k. 17 sinnum lengur að. Dáldið fáránlegt þegar maður þarf að halda svona stíft í við hugann, sem er auðvitað langt langt á undan fingrunum.
Nei ég fíla mig ekkert minni háttar. Mér finnst ég ógessla dugleg að láta mig hafa það. Aldrei að vita nema ég dembi á ykkur daglegum vinstri handar pistlum.
Farið vel með ykkur elskurnar.
Athugasemdir
Laufey mín farðu vel með þig
Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 25.6.2009 kl. 23:44
Elsku stelpan mín þetta er ekki gott. Vonandi batnar þér sem fyrst. En tekurðu eftir því að minnið á tölvuborðið er algjörlega í höndunum. Sú vinstri kann ekkert á borðið hægra meginn og sama um þá hægri hún kann ekkert á vinstri hlutann af lyklaborðinu. Þetta fann ég út þegar ég handleggsbrottnaði. Það er skrýtið hvernig minnið kemur fram í ýmsum stöðum, en ekki bara í hausnum á manni. Knús á þig elskuleg mín.
Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 26.6.2009 kl. 00:07
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.