Astraltertugubb.

astraltertugubb.jpgÞegar við heimasæta og ömmudrengur settumst inn í Yarisinn í gærkvöldi, settumst við inn í þvílíkan fnyk, að heimasætan rauk samstundis út úr bílnum með orðunum; OOJJJ, ég gæti gubbað. "Já einmitt, þetta er einmitt gubbulykt" sagði ömmudrengurinn þá.

Við skyndirannsókn uppgötvaði ég litla hvíta ógeðsbletti á mottunni fyrir aftan farþegasætið. Rak nefið langleiðina ofaní blettina, - og jú, það var ekki um að villast, - stæka gubbulyktin kom af þessum blettum.

Ég fleygði mottunni út á gangstétt, svo heimasætan gæti sest um borð, og svo þutum við á eftir stórum hluta fjölskyldunnar, sem var lögð af stað á öðrum bíl í átt að ísbúðinni.

Á leiðinni veltum við fyrir okkur hvernig í ósköpunum gæti staði á þessum viðbjóði. "Ég held að það hafi gleymst að læsa - og einhver róni komist inn í bílinn og gubbað" sagði ömmudrengurinn.  Akkúrat sama paranojan sem hafði gripið um sig hjá okkur mæðgunum, en hvorug hafði þorað að nefna.

Ég skannaði ferðir mínar á bifreiðinn síðustu sólarhringa í þaula, án þess að komast að niðurstöðu um hvernig gæti mögulega staðið á þessum ósköpum. Heimasætan hafði verið í útlöndum - og enginn annar en eiginmaðurinn verið farþegi hjá mér. Hringdi í hann og spurði hvort hann hefði mögulega gleymt að læsa sín megin, eða hvort hann hefði einhverja hugmynd um hvernig gæti staðið á þessu. "Hefur ekki bara eitthvað matarkyns lekið og súrnað" sagði hann - allsendis áhugalaus um þátttöku í paranojunni minni, - enda staddur í náttúru-unaði á miðhálendinu.

Á heimleiðinni sagði heimasætan: Mig langar að horfa bráðum aftur á myndina Með allt á hreinu.  "Þú ert semsagt líka með lagið Astraltertugubb á heilanum" sagði ég.

Þegar við komum heim úr ísbíltúrnum, tók ég mottuna með mér upp í baðkar og hófst handa við að skrúbba hana upp úr sjóðheitu vatni og rótsterkum hreinsiefnum. "Farðu í druslubol" sagði heimasætan þegar hún sá að ég var byrjuð á ógeðisverkunum í splunkunýjum hvítum kjól. Ég fór í gamla svarta kvennahlaupsbolinn frá 1998. Hann stendur alltaf fyrir sínu.

Svo skrúbbaði ég mottuna upp úr klór. Ég ber einlægt Kristilegt kærleiksþel til landsins róna - og var viss um að það væri ekki einn þeirra sem hafði gubbað í bílinn minn, heldur einhver stórhættulegur illa skemmdur dópisti, langt leiddur af lifrarbólgu, eyðni, og fleiri bráðsmitandi sjúkdómum. 

Til öryggis skrúbbaði ég líka teppið undir mottunni upp úr Ajax og klór, áður en hrein og þurr mottan fór á sinn stað. 

Í morgunn þegar ég fór að sækja frumburðinn á hádegisjazzinn, var gubbufnykurinn enn í bílnum. Sínu verri en í gærkvöldi ef eitthvað var. Við ætluðum varla að komast að Norræna án þess að kúgast, þó báðar rúður væru alveg skrúfaðar niður. 

"Ertu búin að rannsaka almennilega undir sætinu" sagði frumburðurinn. "Þetta gæti hafa lekið þaðan". Mér fannst þessi athugasemd ekki mjög greindarleg, - hvernig í ósköpunum átti einhver manneskja eða dýr að geta gubbað undir sætið. Og ég sem hélt að frumburðurinn væri svo bráðgreind og lík henni mömmu sinni.

Þegar ég hef lagt Yarisnum við rauða húsið við hafið, - set ég höndina varlega undir farþegasætið til að færa það fram og aftur, - en þá verður mér það á að draga fram skúffu sem er undir sætinu og ég man sjaldnast eftir.

Og þar lá hundurinn grafinn.

Einhvern tíman í fyrndinni, líklega fyrir 3-4 árum síðan hafði ég plantað þarna 1/4 líters sojamjólkurfernu. Geymsluþolið átti að vera þó nokkurt, - en þó líklega ekki í árum talið. Svo nú var þessi ágæta ferna orðin illa haldin af höfnunartilfinningu, auk þess sem mjólkin var orðin sár og súr - og eftir að hafa þanið fernuna út til hins ýtrasta, fann hún sér leið út úr henni.

Umrædd skúffa liggur nú í Ajax-pækli í baðkarinu, ásamt mottunni sem vera á fyrir framan farþegasætið. En ég held ég sleppi klórnum, úr því ekkert er lifrarbólgueyðnidópistagubbið.

Rétt í þessu hringdi nágranni minn dyrabjöllunni, bara svona að láta mig vita að rúðurnar á bílnum mínum væru alveg skrúfaðar niður. 

Lifið heil. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Ekki hefði ég viljað lenda í þessu. En skriffinskan þín Laufey, er frábær!!!!!!!!

Asta (IP-tala skráð) 16.8.2009 kl. 19:01

2 identicon

Tek undir yfirlýsingar um kærleiksþel til landsins róna, sem áttu að sjálfsögðu engan þátt í astraltertugubbinu. En hvers eiga stórhættulegu dópistarnir að gjalda? Þykir þér ekkert vænt um þá?

Frumburðurinn (IP-tala skráð) 17.8.2009 kl. 21:35

3 Smámynd: Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir

Ég veit að í Húsasmiðjunni hefur fengist alvöru lyktareyðir í dós sem þú opnar og skilur eftir inni í hinu illa þefjandi rými. Man ekki nafnið á vörunni eins og er en þetta ætti að vera í búsáhaldadeildinni hjá ræstivörunum.

Ólöf Ingibjörg Davíðsdóttir, 21.8.2009 kl. 02:17

4 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hverjum öðrum er þér tækist að gera æsispennandi þriller út frá jafnsjálfsögðum hlut og sojamólkurfernu.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 24.8.2009 kl. 12:27

5 Smámynd: Laufey B Waage

Takk stelpur, gott að fá svona komment.

Jú Berglind, auðvitað þykir mér líka vænt um stórhættulegu dópistana. En þegar maður fer á paranojuflipp, finnst manni nauðsynlegt að nota sterk hreinsiefni og klór til að þrífa "æluna úr þeim".

Laufey B Waage, 27.8.2009 kl. 22:20

6 identicon

Það væri nú algjör munur ef það væri ennþá hægt að kaupa SpikkandSpan hreinsilög til að þrífa svona "huggulegheit". Mömmu minni blessaðri fannst það allra meila bót. En síðan eru liðin mörg ár.

Vonandi fer bíllinn þinn að lykta betur sem fyrst mín kæra.

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 28.8.2009 kl. 21:13

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband