Sól og regn.

Mín var í Vatnaskógi um síðustu helgi. Ég hef komið þangað mjög oft seinustu 8 árin, en aldrei áður hef ég gist þar í tjaldi. Nú var komið að því. Ég mætti á staðinn með mitt litla sæta skátatjald (sem ég keypti fyrir 11 árum og var að tjalda í 3ja sinn) og svaf þar eins og engill í 3 nætur. Eiginmaðurinn hafði á orði þegar hann hjálpaði mér að pakka tjaldinu saman á mánudaginn, að aldrei áður hefði hann séð skraufaþurran tjaldbotn við samantöku.

Enda féll ekki einn einasti dropi úr lofti alla helgina. Það var meira að segja svo þurrt, að staðurinn varð vatnslaus á tímabili.

Þar sem ég sat að spjalli við aðrar eftirlegukindur síðdegis á mánudeginum, - vakti ég athygli á góðveðurskrákunni mér, sem bæri greinilega ábyrgð á þessari brakandi blíðu, með því að tjalda loksins. Viðmælendur mínir sögðust myndu sjá til þess að ég fengi aldrei aftur gistingu inni í húsi um verslunarmannahelgi.

En helgin leið án þess að ég fyndi hjá mér snefil af löngun til að fara í göngutúr. Í sólskini, logni og hita er eins og maður sé hálf dasaður og vilji bara njóta þess að dingla sér í rólegheitum.

En í gærmorgunn (fimmtudag) um leið og byrjaði að rigna, langaði mig í göngutúr. Eiginmanninum fannst hugmyndin góð - og við keyrðum upp í Hvalfjörð, klædd ullarbolum, flíspeysum, regnfötum og gönguskóm. Vorum í ham þegar við lögðum bílnum og æddum útí náttúruna í brjáluðu roki og rigningu. Það var æði. Holdvot og veðurbarin þegar við komum aftur í bílinn. 

Gistum á Glym í nótt og fórum svo í annan göngutúr á bakaleiðinni. Þá var aðeins lygna, en rosaleg rigning.

Í báðum þessum gönguferðum var ég svo upptekin af því hvað ég er heppin að búa á Íslandi. Tilfinning sem ég fæ reyndar alltaf þegar ég geng um íslenska náttúru. Í næstum því öllum veðrum. Ég var líka upptekin af því hvað tilfinning fyrir góðu veðri getur verið afstæð.

Legg ekki meira á ykkur.

Góða helgi gott fólk.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Takk fyrir þessa hugljúfu færslu Laufey mín.  Veðrið hefur mikið að segja um hvernig okkur líður, við hverjar aðstæður.  Rigningin getur verið góð alveg eins og sólin.  Bara ef það er hlýtt,

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 8.8.2009 kl. 10:06

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband