Gola á Garðsskaga

batur_a_gar_skaga.jpgEiginmaðurinn missti það út úr sér nýverið, að hann hefði aldrei komið út á Garðsskaga. Það fannst mér öldungis ófært. Mamma var mér innilega sammála - og við ákváðum að drífa okkur með hann hið snarasta.

Þegar stóru börnin mín voru á barnsaldri fórum við varla svo til mömmu, að þau báðu ekki um að fara út á Garðsskaga (mamma býr í Keflavík). Ég man sérstaklega eftir einni ferðinni, þegar ömmunni og börnunum fannst nauðsynlegt að hafa nógu marga poka meðferðis undir kuðunga, skeljar, steina og aðra "dýrgripi". Undirritaðri fannst þá og finnst enn margt unaðslegra við fjöruferðir en ruslasöfnun.

Þegar við mættum á staðinn var háflóð. Ég horfði á mömmu með hneykslunarsvip og spurði "átti þetta ekki að vera fjöruferð?"

Í gær fórum við svo "með eiginmanninn". Buðum ömmudrengnum (eldri) með. Hann varð mjög glaður þegar ég sagði honum að það væru tveir vitar á staðnum. Í þetta skiptið kíkti ÉG á flóðatöfluna í mogganum. Treysti mömmu ekki til þess, þó hún sé reyndar jafn minnug á umrædda "fjöruferð á flóði" og ég.

Við útbjuggum mikið og gott nesti. Það er að vísu gott kaffihús á Garðskaga (Flösin), en hagsýnar húsmæður eru samar við sig, sér í lagi á krepputímum. Auk þess var ég ennþá stödd í hinum útlenska sumarhita sunnudagsins og tilkynnti að það yrði sko fjöru-pikknikk. Kippti með mér þunnri peysu til málamynda, en var annars bara á stuttbuxum og hlýrabol. Bar meira að segja á mig sólarvörn á leiðinni í bílnum.

"Það er oft dáldil gola úti á Garðsskaga, viltu ekki fá hjá mér síðbuxur" spurði mamma, þegar við sóttum hana. Ég hélt nú ekki. Maður fer ekki á kraftgallanum í pikknikk um hásumar.

 "Golan" á Garðskaga var ísköld og á fleygiferð. Svo mikilli ferð, að mamma rifjaði upp söguna af Þórólfi vini sínum, sem útskýrði skjótfenginn skalla sinn á þá leið að vindurinn í Oddskarði hefði verið á fleygiferð þegar hann átti leið þar um. Við fórum marga hringi í kring um vitana, en "golan" blés sem brjáluð væri allan hringinn. Drengnum fannst það ekki stórmál, því aðalatriðið væri að fara upp í vitana. En þeir voru þá harðlæstir og engin leið að fá þá opnaða.

_nyju_torgi.jpgVið hlýjuðum okkur á kaffibollum INNI á Flösinni og héldum síðan áfram leitinni að logninu. Ekki var það á fjörusandinum, svo mikið var víst.

Við vorum að verða úrkula vonar, þegar við duttum loksins niðrá það undir einum húsvegg. Mikið var nestið nú gott. Og blessuð sólin skein svo glatt að ég fór meira að segja smá stund úr peysunni, sem ég hafði að sjálfsögðu farið í um leið og ég fór út úr bílnum.

Það var engu rusli safnað í þessari "fjöruferð".

Seinni myndin er ekki frá Garðsskaga, heldur úr vikugamalli 101-pikknikk-ferð.

Lifið heil.

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Það er til mynd af mér við Garðskagavita, 10-11 ára gamalli eins og sonur minn er núna, sem er mér minnistæð fyrir þær sakir að ég er með varalit á henni. Ef ég man rétt var ég með ægilegan varaþurrk sem versnaði bara í Garðskaga-golunni, og amma var ekki með neinn varasalva, bara varalit. Þessi mynd var í miklu uppáhaldi hjá mér þangað til ég varð það stálpaður unglingur að ég fór að nota varalit þegar mér þótti það hæfa. Fram að því lét ég mér nægja að dáðst að eigin fullorðinsskap á þessari mynd frá Garðskaga.

Berglind (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 22:35

2 identicon

Mikið hlýnar mér um hjartaræturnar að lesa svona skemmtilega frásögn af heimahögunum :) Annars hef ég sennilega rétt misst af þér, fór einmitt bæði út á skaga og á safnið á mánudaginn!

Elín Björk (IP-tala skráð) 14.7.2009 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband