Skattframtalsgeðveikin.

SkattframtaliðÞessa vikuna var ég á barmi taugaáfalls. Hingað til hef ég í hroka mínum hneykslast á fólki, sem ýmist fær sér endurskoðanda til að vinna þetta lauflétta löðurmannsverk, sem skattframtalið er, - eða þá að það situr sveitt í stresskasti yfir framtalinu vikum og mánuðum saman - og fær svo fyrir rest á sig áætlun.

Þegar eiginmaðurinn sá að ég var ekkert farin að pæla í framtalinu á síðasta skiladegi, sótti hann um frest til 1.apríl. Þann dag ákvað ég að hrista þetta fram úr erminni á korteri eftir kvöldmat.

En hrokinn kemur víst alltaf aftan af manni eins og ísköld vatnsgusa. Til skamms tíma vann ég ég bara á vernduðum vinnustöðum. - Þ.e. ég naut forréttinda hins almenna launþega, þar sem launagreiðandinn sér um allan rekstrarkostnað, félagsgjöld, lífeyrisgreiðslur - og alla þessa þætti, sem maður vill bara fá að njóta, en ekki pæla í. Alla vega tilheyri ég þeim þjóðflokki (sem vill bara njóta þessara þátta, en ekki pæla í þeim). 

En við það að skipta um tónlistarskóla, fara að kenna við skóla sem er einkastofnun, algjörlega óháð hvers kyns opinberum rekstri, neyddist ég til að gerast verktaki, sem á skattframtalinu heitir að ég er hvort tveggja í senn, minn eigin launagreiðandi og launþegi.

Fyrir mér var það alveg nógu mikil breyting að verða að telja saman tímana mína og senda inn reikning í hverjum mánuði. Mér tekst alltaf að láta það koma mér í opna skjöldu, að launin mín koma ekki sjálfkrafa inn á reikninginn minn fyrsta hvers mánaðar. Eins og mér líkar nú vel í nýja skólanum, þá hentaði mér mun betur að vera bara áskrifandi að föstum launum, eiga rétt á sumarbústað, greiðslum úr orlofssjóði, endurmenntunarsjóði, sjúkrasjóði, - og að þurfa ekki að sjá um neitt sem heitir skattur, lífeyrissjóður og það allt saman.

Eftir vel rúmt korter á þriðjudagskvöldið, reyndi ég í einu af mínum nettu útópíuköstum, að ýta á send. Ónei, þeir voru ekki aldeilis á því að samþykkja það. Ég fékk bæði villur, ábendingar og athugasemdir í hausinn. Ég þurfti m.a. að tína til alls kyns kostnað við öflun tekna, til að finna nettólaun - og borga svo 12% af þeim nettisma í lífeyrissjóð. Ég hafði í mínum hentuga naívisma verið ómeðvituð um allt slíkt, svo nú upphófst mikil vinna við að gera raunhæfar kostnaðaráætlanir eftirá.

Næstu sólarhringar fóru því í löng og leiðinleg símtöl, pælingar, útreikninga, skoðanir og snatt - og auðvitað að finna sér lífeyrissjóð og borga heilsársgreiðslu í hann. Og gamanlaust, - það komu þó nokkur augnablik, þar sem ég hélt ég mundi missa vitið. En í gærkvöldi tókst mér að ýta á send og fá "bara" tvær ábendingar, en enga athugasemd eða villu. Svo ég ýtti bara strax á "senda samt" áður en ég yrði Klepptæk. Eins gott fyrir geðheilsu mína að þetta sleppi. 

Eiginmaðurinn reyndi af sinni bestu getu og tíma að hjálpa mér. En þessum annars geðprúða og elskulega manni tókst engan vegin að leyna pirringi sínum yfir "auðmýkt minni og samvinnufýsi". Auk þess sem hann er þessi tímanlega týpa - og þar af leiðandi ekkert yfir sig hrifinn af frestunaráráttunni minni. Svo við vorum allan tíman í leiðindakeppni - og urðum að sjálfsögðu ekki sammála um, hvort okkar sigraði þá keppni. En nú erum við sem betur fer búin að ýta á send - og getum haldið áfram að vera elskuleg og skemmtileg - og njóta lífsins og hvors annars. Það fer okkur svo vel.

Ásbjörg RauðhettaBest að lífga aðeins upp á þessa leiðinlegu færslu, með mynd af heimasætunni (Rauðhettu), sem var á leið á grímuball MR, um það leyti sem við vorum að leggja síðustu hönd á framtalið.

Góða helgi gott fólk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Einar Indriðason

Svona til að gleðja þig, þá er ég einn af þeim sem þú hefur hnýtt í (og þó aldrei tekið eftir því) - Ég semsagt fékk endurskoðanda til að gera mitt framtal fyrir mig.  Það eins sem ég þurfti að gera, var að týna saman pappíra, yfirlit, og reikninga.  Setja í möppu.  Sitja hjá honum í hálftíma, borga.  Búið.

(Ég nefnilega lagði það niður fyrir mig fyrir nokkrum árum, hvort vil ég sitja kvöld eftir kvöld, með sveittann skallann, og pæla í skattskýrslunni, eða, fá einhvern sem gerir þetta hvort sem er alla daga, og ... klára málið á klukkustund.  Svarið fyrir mig var einfalt.  Klárum þetta á klukkustund.)

En... svona eftir á að hyggja, þá er fargi létt af manni, og til lukku með að vera búin að skila :-)

Einar Indriðason, 4.4.2008 kl. 10:45

2 Smámynd: Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir

Hef fengið aðstoð viðskiptafræðings sem tekur þetta að sér sl. ár fyrir sanngjarna þóknun að mínu mati. Það sem tekur hann hálftíma tæki mig eflaust sólarhring og bætti í áhyggjubunkann minn sem er nógu stór fyrir hehe..

Jóhanna Magnúsar- og Völudóttir , 4.4.2008 kl. 11:17

3 Smámynd: Laufey B Waage

Kærar þakkir fyrir samúð og góð ráð. Það fyndna er, að besta vinkona mín er gift endurskoðanda með góða reynslu, auk þess sem ég þykist vita að frumburðurinn minn sé snillingur í þessu, sem svo mörgu öðru. Maður þarf bara að hugsa fyrir þessum hlutum aðeins fyrr. Ég ætla rétt að vona að ég hafi vit á því í byrjun næsta árs, að semja við fagmann (faglærðan eða ófaglærðan).

Laufey B Waage, 4.4.2008 kl. 16:12

4 identicon

Á mínu heimili eru skýr verkaskipti á sumu, ekki öllu. Og allt sem viðkemur skattaframtali tilheyrir Óla mínum. Sem betur fer á ég svo tvo stráka í viðskiptafræði. Vegna þess að það hentar mér mjög illa að gera svona.

En Laufey mín það getur verið vont að glíma við hrokann það er mikilvægt að geta stjórnað honum, og veistu að æðruleysið er miklu betra,

Eigðu góðan dag Þórunn frænka þín.

ÞórunnJóhannsdóttir (IP-tala skráð) 6.4.2008 kl. 13:34

5 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Mínar innilegustu samúðarkveðjur Laufey mín

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 6.4.2008 kl. 14:22

6 Smámynd: Laufey B Waage

Takk Ía mín.

Þórunn mín, ég reyndi nú að segja mínum manni að hann gæti alveg tekið þetta að sér fyrir okkur bæði (meðal annars á þeim forsendum að ég hef harðbannað honum að sjá um matseld á mínu heimili). En hann hefur ekki bara tileinkað sér æðruleysi, heldur fleiri dyggðir úr þeim geira, og neitar bæði að kóa með mér - og láta mig ráðskast með sig.  

Laufey B Waage, 7.4.2008 kl. 22:08

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband