Át off karakter.

Vissi að það er allt of langt síðan ég bloggaði síðast, - en rúmir 10 mánuðir, það nær náttla ekki nokkurri átt.

Það helsta sem hefur gerst á þessum mánuðum, er að hreyfiæðiði hefur tekið nýja stefnu.

Um miðjan júní fékk vinur minn mig með sér í kvöldgöngu í EilífsDAL. Þetta var liður í svokölluðum miðvikudagsgöngum Útivistar (held ég frekar en FÍ). Ég tók með mér FJALLgönguskóna þó ganga ætti í DAL. Eins gott- því hugmynd mín um DAL hafði verið rangur misskilningur. Við lögðum bílunum við dalsmynnið Eilífa og svo var lagt á brattann. Upp og niður endalausa hóla og hæðir á hraða hins þaulþjálfaða fjallgöngumanns. Og ég gat auðvitað ekki látið látið neinn bilbug á mér finna, þótt mér liði strax í fyrstu brekkunni eins og nú væri komið að hjartaáfallinu sem ég hætti við á aðventunni síðustu.

Morguninn eftir var vinstri öklinn verri en á fílamanninum, stokkbólginn, sár og aumur - og ég gat öngvan vegin gengið eðlilega.

En sumarið er tími hreyfingar og útivistar - og þá sitja hörkutól og hreyfibrjálæðingar ekki heima á sínum rassi. Hálfum mánuði eftir Eilífsdals-fjallgönguna viðraði að vísu illa til útivistar og skellti mín sér því í Tabata-tíma. Í millitíðinni hafði ég hjólað Vatnsleysuströndina, Fossvogs+Elliðaárdalinn og fleira skemmtilegt (ekkert mál að hjóla, þó maður geti ekki gengið ógrátandi milli húsa).

En morguninn eftir Tabata-tímann var hægri ökklinn orðinn ennþá verri en sá vinstri hafði verið eftir gönguna.
Svo nú varð ég að bakka hægt niður stigann til að komast í sjúkranuddið.

Til að gera langa sögu stutta, þá kom í ljós að ég er með slæma hásinabólgu. "Þetta hefur með aldur og álag að gera" sagði sérfræðingurinn. Ekkert verið að hlífa manni með óþarfa kurteisi. Þetta gerist semsagt hjá fólki sem komið er á minn aldur og ofbýður líkama sínum ennþá með sama álagi og þegar það var 18 ára. "Þetta á að lagast á 6-12 mánuðum, en þú átt aldrei eftir að geta boðið ökklunum upp á sama álag og þú gerðir áður" sagði sérfræðingurinn heiðarlegi.

"Þetta er gjörsamlega át off karakter!!" sagði vinkona mín - og ég var henni svo innilega sammála. Af hverju gat þetta ekki komið fyrir einhvern sem virkilega VILL liggja heima í sófa. Væ mí Lord, - ég sem VERÐ alltaf að vera eins og þeytispjald út um allar jarðir. Stakk mér á kaf í ærlega sjálfsvorkunn um skeið, en fékk svo samviskubit, því auðvitað er mér ekki nokkur vorkunn. Hélt reyndar að upphafsorð bókarinnar Víst kann Lotta að hjóla: Það er svo merkilegt með mig, að ég get næstum allt - ættu við um mig. En þó að lítillega hafi dregið úr þeirri getu, sit ég samt eftir með töluvert:

Ég get t.d. hjólað (nokkra kílómetra á jafnsléttu).

Svo hef ég ákveðið að gera sund að nýju reglulegu líkamsræktinni minni. Eftir að ég byrjaði í leikfimi fyrir 12 árum, fór ég bara í sund til að liggja í pottinum (helst í góðum félagsskap) og í gufubaði. Já ég veit, - dáldið svona eins og að fara í bíó og borða bara poppið (horfa ekki á myndina). En nú fer ég til að synda, er meira að segja komin með árskort í sundi.

Ein "típísk ég" sundferðarsaga svona í lokin:

Ég skammta mér oft mjög knappan tíma til að hjóla í sund, synda 800 metra, teygja aðeins í gufunni, hjóla heim (jú auðvitað hátta, sturta, klæða og allt það - látið ekki svona) og fá mér hádegismat áður en ég byrja að kenna. Einn daginn þegar ég kem að að Sundlaug Bestabæjar er hún lokuð vegna viðhalds. Ég ákveð að drífa mig í Sundlaug Seltjarnarness, en er bara búin að hjóla nokkra metra þegar ég átta mig á því að sundkort í Reykjavíkurlaugarnar gilda ekki á Seltjarnarnesi. Hundskamma sjálfa mig fyrir að hafa ekki tekið með mér neina greiðslumiðla - á meðan ég hjóla með hraði heim að sækja þá. "Fer samt í sund" tauta ég við sjálfa mig á leiðinni. "Ég skal ná þessu, ég sleppi gufunni og læt 500 metra duga því nú hjóla ég lengra". Hálf-hleyp upp stigann eftir peningum og æpi í hverri tröppu á niðurleið því ég gaf mér ekki tíma til að bakka. Ég var að verða komin að Nes-lauginni þegar ég mundi eftir því að ég er með sundkort frá þeim í augunum. Notaði ekki peningana sem ég fór heim til að sækja, horfði bara í einhvert tæki sem hleypti mér inn.

Meðan ég synti þessa 500 metra hafði ég miklar áhyggjur af því að nú yrði örugglega sprungið dekk á hjólinu þegar ég kæmi út. Sú var sem betur fer ekki raunin, þannig að ég náði að skella í mig smá hádegismat fyrir kennslu.

Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Já, mamma mín. Það er einmitt svo merkilegt með þig, að þú getur næstum allt. En bara næstum :-)

Berglind (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 22:58

2 identicon

Laufey mín, elsku barnið mitt. Hann Lalli minn þjáist af hásinabólgu, mjög mikilli, háir körfuboltamanninum Þorleifi mjög mikið. Það hefur ekkert með aldur að gera, kannske álag, þó ekki. Þetta bara gerist, segir hans læknir Sveinbjörn Brandsson. Sá góði maður er snillingur í augum minnar fjölskyldu. Lalli notar sjúkraþjálfara samhliða körfuboltaþjálfun allt árið. Hvílir sig stundum á milli stríða mislengi. Er búinn að vera góður núna í langan tíma. (Sem er tveir mánuðir). Þetta virðist koma fyrirvaralaust aftur og aftur. Lalli er 27 ára og þú rétt nokkrum árum eldri aldur hvað. Vertu kát og syntu bara það er ekki hægt að gera allt. Bestu kveðjur til þín og þinna elsku frænka mín.

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 23.11.2011 kl. 23:19

3 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Þú nærð þessu fyrr en varir Laufey mín.  Ég get sagt þér að fyrir nokkrum mánuðum gat ég varla beygt hnén, svo fór ég til Báru dóttur minnar og álpaðist tili að bjóða þeim hjónum að lónsera  hestana þeirra, gekk fleiri klukkutíma á dag með hrossinn, og svo fór ég að taka Magnesíum.  Og viti menn áður en ég vissi af, gat ég beygt mig vel og varð ótrúlega góð.  Þetta hefur nefnilega ekkert með aldurinn að gera, heldur toppstykkið og ákveðnina að geta næstum allt.

Og aldrei láta lækna segja þér neitt svona.  Þeir bara vita ekki betur greyin.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 23.11.2011 kl. 23:45

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband