Afmælisbarn dagsins

Scan 116

Daginn eftir fertugsafmæli ömmu Fríðu (sem við minntumst í gær, því þá voru 100 ár frá því hún fæddist) hringdi síminn hjá henni og ókunnug rödd spurði eftir pabba mínum sem þá var 18 ára. Ömmu fannst pabbi eitthvað kindarlegur í símann svo hún reyndi að fá hann til að segja sér hvað þetta hafi verið. En pabbi fór allur undan í flæmingi og sagði þetta bara hafa verið eitthvað bull. En amma linnti ekki látum fyrr en hann sagði henni að hringt hafi verið frá fæðingardeild Landspítalans og honum tjáð að honum hefði fæðst dóttir. Það hlýtur að vera ástæða fyrir þessari tilkynningu - sagði amma. Ætlarðu ekki upp á deild að athuga málið? En pabbi hélt nú ekki. Amma reyndi eins og hún gat að fá hann til að fara, en honum varð ekki haggað. Nú þá fer ég - sagði amma og fór. - Og kom til baka með þessum orðum: Láttu þér ekki detta í hug að þræta fyrir þetta barn, hún er alveg eins og þú.

Og amma gerði meira: Hún myndaði strax gott samband við barnsmóðurina sem bjó í sveit fyrir austan fjall ásamt foreldrum sínum, systur, systurdóttur, föðursystur og náttla henni systur minni. - Bað hana að lofa sér því að í hvert sinn sem hún kæmi til borgarinnar þá hefði hún þá stuttu með - og leyfði henni að vera hjá ömmu og afa í Reykjavík. Og hún lét ekki þar við sitja: Eftir að ég fæddist rúmum tveimur árum síðar, bað hún alltaf um að fá mig líka, þegar von var systur minni úr sveitinni. Þannig sá hún um að tengja og treysta tryggðarböndin milli okkar systranna alveg frá upphafi. Og þegar hún og afi fóru í heimsókn til þeirra mæðgna í sveitinni, þá tóku þau mig alltaf með sér.

Ég er henni ömmu minni alveg einstaklega þakklát fyrir þetta. Sérstaklega þar sem að á þeim árum tóku ungir feður ekki alltaf upp hjá sjálfum sér að sinna mikið þeim börnum sem ekki bjuggu hjá þeim. Meira að segja ekki besti pabbi í heimi, sem pabbi okkar svo sannarlega var. Svo var langt á milli heimila okkar (og töluvert verri vegir en nú) og ég var orðin 14 ára (eldri systirin 16) þegar foreldrar mínir eignuðust bíl.

Og hún stóra systir mín hlýtur líka að vera þakklát henni ömmu. Í það minnsta er hún og hefur alltaf verið alveg einstaklega ræktarleg við föðurfólkið okkar. Amma dó allt of snemma (53ja ára), en ömmusysturnar töluðu um það á meðan þær lifðu að þessi stóra systir mín væri sá ættingi sem lang oftast kæmi í heimsókn. Svo bjó hún líka á tímabili hjá afa og seinni konu hans. Þegar hún svo fór sjálf að búa með sínum manni, settist þau að í sama sveitarfélagi og pabbi og mamma bjuggu og búa þar enn. Pabbi dó því miður ca þremur árum seinna (44ra ára), en stórasystir er alltaf í miklu og góðu sambandi við mömmu, okkur systkinin og allt okkar fólk. Við hin mættum svo sannarlega taka hana til fyrirmyndar í þeim efnum, því flest eða öll höfum við fallið í hina dæmigerðu gryfju nútíma íslendingsins að rækta ekki eins oft og mikið og við vildum sambandið við okkar nánustu.

Og í dag er hún systir mín sextug. Eitthvað sem hvorki pabbi né amma náðu. - Fólkið sem tengdi okkur. En mikið sem ég er þeim þakklát fyrir að hafa gefið okkur hvor aðra. Og mikið sem ég er þessari yndislegu systur minni þakklát fyrir að hafa aldrei gefist upp á að sinna mér, þó ég hafi ekki haft rænu á að gjalda nærri nóg í sömu mynt. Ég held að besta afmælisgjöfin sem ég get gefið henni - og okkur báðum - sé að lofa bót og betrun þar á. Og standa við það loforð. 

Hún vildi alls ekki halda upp á afmælið sitt, en við áttum frábæra stund saman í gærkvöldi - ásamt föðurfjölskyldunni okkar - í minningu hennar ömmu okkar. Hlakka til að drekka með henni prívat afmæliskaffi við fyrsta tækifæri.

Meðfylgjandi mynd af afmælisbarni dagsins er tekin við snyrtiborðið hennar ömmu (amma sést í speglinum að taka myndina).


Bleika hálsfestin

Mér fannst ég svona frekar í fínni kantinum á fundinum í gærmorgunn. Í nýju rósóttu sokkabuxunum, vínrauðum kjól, spari-sparipeysu (Hildur designe) og með bleika hálsfesti. Og náttla með bleikan varalit og bros á vör. Eftir fundinn fór ég svo í gömlu góðu 66gr norður úlpuna og útivistarbuxurnar yfir herlegheitin, og setti á mig doppóttu hanskana og hjálminn sem mér tókst loks að venja mig á fyrir nokkrum árum - og meira að segja eiginmaðurinn viðurkennir að fari mér hræðilega illa (þótt hann sé rauður). Svo ef þið sjáið mig hjólandi úti í bæ, þá segir lúkkið ekkert um hugsanlegt fínerí sem fyrir innan leynist.

Sem ég hjóla fram hjá Spron-kaffihúsinu á Skólavörðustíg, heyri ég skyndilega eitthvert nett hljóð sem fær mig til að snarstoppa, stíga af hjólinu og líta afturfyrir mig. Liggur þar ekki bleika hálsfestin u.þ.b. 30 sentimetra frá afturdekkinu. Sjúkket og Guði sé lof og eins gott - og allur sá pakki þaut í gegn um hugann þar sem ég beygði mig eftir festinni. Það er nú ekki mér líkt að taka eftir svona nettum hljóðum og láta þau hafa áhrif á mig.

Eftir hádegismat á Gló hjólaði ég niður í Eymundsson Austurstræti, með stuttri viðkomu í apóteki við Laugaveginn. Þegar ég kem út úr Eymundsson er komið leiðindaveður, svo ég renni úlpunni upp í háls og smelli báðum smellunum við hálsinn, en passa mig þó á að fara hvorki illa með festina né hálsinn þegar ég þrýsti smellunum að hálsinum. Festina!?!?! - Ertu ekki að grínast í mér? - Ég finn ekki fyrir neinni festi.

Með hamagangi og látum smelli ég frá og renni niður og þreifa á hálsinum. - Engin festi. Ég þreifa inn undir úlpuna eftir allri peysuni að aftan og framan, fer síðan inn undir peysuna og þreifa mig í bak og fyrir. Tek þá eftir því að Austurstrætisdætur og synir eru farin að stara á mig - og velta því greinilega fyrir sér með hvaða ósköpum þetta brjálæðislega káf og þukl muni eiginlega enda.

Svo ég fer inn í Eymundsson og fínkembi gólf á öllum hæðum og spyr slatta af starfsfólki. - Engin festi.

Renni aftur upp í háls og fínkembi Austurstræti, Bankastræti og Laugaveg að númer 20. Fór inn í apótekið og Gló þar sem ég leitaði dauðaleit á gólfum, borðum og salerni og spurði starfsfólk. - Engin festi.

Hjólaði upp í kirkju með grátstafinn í kverkunum. Var ég ekki búin að tapa nógu mörgum ægifögrum og sérdýrmætum hálsfestum með nákvæmlega þessum hætti? Þær bara runnu niður af mér án þess að ég tæki eftir því fyrr en allt of seint.

Þegar ég kom í kirkjuna (til að undirbúa veisluhöld við vígsluhátíð Bösendorferins) velti ég því fyrir mér hvort það væri ekki í góðu lagi að hafa úlpuna í fatahenginu þó það væru seðlar í innanávasanum (það vantar alveg í mig þjófhræðslugenið). Og sem ég hugsa þessa hugsun, þá verður mér það á af einhverri rælni að klappa á innanávasann. - What!?! - Þessi lögun samrýmdist ekki alveg peningaseðlum einum saman. Opnaði innanávasann og við mér blasti bleika hálsfestin. 

Nei ég held ekki að hún hafi runnið af mér og ofan í vasann. Er frekar á því að ég hafi sett hana þarna og rennt kirfilega fyrir, svo hún rynni ekki aftur af mér í þessari sömu ferð. Gleymdi bara að festa það í minninu. 

Er með hana á mér núna - alsæl. Finn því miður ekki myndavélina svo ég get ekki tekið mynd og látið fylgja eins og ég hafði hugsað mér. Biðst afsökunar.

Lifið heil. 


Ísafjarðar-trúnó

Scan 76Þegar ég skrifaði annál ársins 2013, kom tengdadóttirin með þá athugasemd, að ég hefði nú líka farið í langar og skemmtilegar ferðir til Ísafjarðar á árinu. Á bak við þá staðreynd er svo tilfinningaþrunginn formáli og meginmál að slíkt krefst sérstakar færslu. Sé hún þá birtingarhæf (sökum persónulegs tilfinningaþrunga).

Ég giftist barn að aldri til Ísafjarðar og bjó þar í 9 ár. Þetta var einstaklega skrautlegur og skemmtilegur tími, enda er maður opnastur fyrir ævintýrum á árunum í kring um tvítugt.

En auðvitað var líka ýmislegt ansi erfitt, eins og gengur og gerist þegar ung og vitlaus móðir reynir af veikum mætti að skapa sér og sínum innihaldsríkt fjölskyldulíf. 

Scan 106Ég hafði alltaf verið afskipt í grunnskóla (sem var í 500 km fjarlægð frá Ísafirði) og tók öngvan þátt í mannlífinu í því plássi, fyrir utan mitt yndislega heimili.

Þegar ég kom vestur fannst mér ég í fyrsta skipti kynnast lífinu. Þar tók ég fullan þátt í mannlífinu og varð meira að segja vinsæl. Ég aðlagaðist algjörlega því sem fyrir var á staðnum. Ákvað að nýja lífið mitt þar vestra væri ekki bara öðruvísi en ég var vön, heldur miklu betra. Gerðist meira að segja gangrýnin á bernskuna mína í stað þess að taka eitt og annað með mér úr mínu frábæra uppeldi.

Scan 21En án þess að gera mér grein fyrir ástæðunum, þá leið mér alltaf illa yfir því hversu slælega mér tókst að uppfylla eigin hugmyndir um gott fjölskyldulíf. 

Í mörg ár eftir að ég flutti suður, leið mér yfirleitt illa þá sjaldan sem ég kom vestur. Og ekki nóg með það, - mér leið alltaf illa á sólríkum sunnudögum, því þeir minntu mig á einhvern undarlegan hátt á það óþægilegasta við líf mitt á Ísafirði (það má gera tilraun til að útskýra það nánar ef þið nennið í trúnó-te á Vesturgötuna).

Ég gerði tvær skelfilegar tilraunir til að heimsækja Ísafjörð um páska ("83 (þá nýflutt suður) og "97). Skelfingin fólst í því að ísfirsku páskarnir margfölduðu upplifun mína af sólríkum sunnudögum (já ég veit þetta hljómar ýkt klikkað).

Nú um síðustu páska gat ég ekki lengur látið hjá líða að kíkja á hina margrómuðu rokkhátið Aldrei fór ég suður, sem einkasonurinn hefur frá upphafi verið potturinn og pannan í.

IMG_0854Fannst ég loksins tilbúin til að taka þátt í fölskvalausri gleðinni, eftir að hafa "unnið í sjálfri mér" árum saman. Þorði þó ekki annað en að taka eiginmanninn með mér, til halds og trausts.

Hún er ólýsanleg tilfinningin sem ég fékk þegar ég labbaði ein út Seljaveginn á sólríkum dymbilvikudegi á leið að sækja eldra ísfirska ömmubarnið í leikskólann, vitandi af eiginmanningum heima með það yngra. Ég horfði yfir bæinn og það helltist yfir mig hugsunin: NÚTÍMINN minn er líka á Ísafirði og hann er BARA GÓÐUR.  

Í júní fór ég svo ein vestur og stoppaði í 10 daga (lengsta stopp síðan "83). Og mér leið BARA VEL annan tímann. Gerði ýmislegt sem er stór hluti af mér og mínum nútíma, en ekki Ísafjarðarárunum. T.d. hjólaði ég Óshlíðina og fram í dal (Hnífsdal) og labbaði upp í Naustahvilft (nei það hafði ég aldrei gert áður). Spilaði slatta á píanóið, eftir eyranu og mér til ánægju. En aðalatriðið var auðvitað að njóta lífsins með ísfirsku fjölskyldunni minni með margvíslegum hætti. 

IMG_0831

Síðasta kvöldið í þeirri ferð upplifði ég svo fyrir undarlega tilviljun aðstæður sem komust eins langt og hægt var í að endurskapa sáru minningarnar mínar, - en þá fann ég svo augljóslega að minningar eru eldgömul þátíð, sem hefur nákvæmlega ekkert að gera með mitt unaðslega líf og líðan í nútíðinni.

Biðst afsökunar á að opinbera illskiljanlegt tilfinninga"rugl" (ef ég læt þá verða af því að opinbera það, - líklega hendi ég færslunni fljótlega). En eins og ég kom að áðan; þá er möguleiki á útskýringum yfir trúnó-tebolla, ef einhver hefur áhuga. 

Legg ekki meira á ykkur að sinni. 


Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband