Ég vil fara til ....

Þegar einkasonurinn var nýlega 3ja ára og frumburðurinn að verða 8, fórum við faðir þeirra með þau í frí til Danmerkur. Börnin upplifðu "jól og afmæli" daglega. Tívolí í gær, dýragarður í dag, Lególand á morgunn o.s.frv. Drengurinn ungi varð að vonum dáldið æstur og uppveðraður yfir þessum endalausu "jólapökkum". Um leið og einum pakkanum lauk vildi hann opna þann næsta.

Og á kvöldin þegar hann átti að fara að sofa, var nætursvefninn klárlega ekki sá pakki sem hann vildi opna næst.Þá var hann ekki bara æstur og uppveðraður, - heldur orðinn of þreyttur. Meðan ég reyndi að hátta hann, þvo og bursta tennur, hrópaði hann; ég vil ... - ég vil .... En af því undirmeðvitundin veit að þá er best að fara að sofa - tókst honum að "vilja" eitthvað sem var ekki hægt. Strax fyrsta kvöldið söng hann; ég vil fara til Keflavíkur, til ömmu. " Það er ekki hægt, amma er í Júgóslavíu" sagði ég. Það sem eftir var ferðarinnar hljómaði söngurinn "ég vil fara til Keflavíkur" á hverju kvöldi þegar drengurinn var kominn á ákveðið þreytustig.

Við fórum heim með næturflugi. Það var farið að nálgast miðnætti þegar við gengum eftir göngum Kastrup og ofurþreyttur drengurinn byrjaði að væla. Ég reyndi strax að stoppa hann með orðunum "þú geturðu verið glaður, því nú erum við að fara til Keflavíkur". Þá vældi minn hástöfum; ég vil fara til Júgóslavíu!!

Því er það - allar götur síðan - að þegar eitthvert barn í fjölskyldunni kemst á ákveðið þreytustig og einhver spyr; hvað er að honum/henni; - þá höfum við svar á reiðum höndum: Það er ekkert að, hann/hún vill bara fara til Júgóslavíu.

Og nú - 31 ári síðar - er drengurinn loksins búinn að kaupa ferð til Júgóslavíu. Með sinn þriggja ára dreng, eiginkonu og nýfætt stúlkubarn. Það kæmi mér ekki á óvart, þó kvöldin í þeirri ferð muni enda á söngnum; ég vil fara til ömmu Laufeyjar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Hahaha svona er þetta fylgir bara með í pakkanum.  Og svo er örugglega gott að vara hjá ömmu Laufeyju.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 5.7.2012 kl. 12:08

2 identicon

Loksins, loksins er ég að fara til Júgóslavíu. Eftir 31 ár. Það verður gaman að sjá til hvaða lands Hálfdán Ingólfur á eftir að vilja fara til. Líbíu, kannski?

Bjarki (IP-tala skráð) 6.7.2012 kl. 08:06

3 Smámynd: Laufey B Waage

Já en Bjarki, það er frekar ólíklegt að ég verði í Líbíu meðan þið verðið í Júgóslavíu, þetta fer auðvitað eftir því ef sagan á að endurtaka sig.

Laufey B Waage, 6.7.2012 kl. 22:46

4 identicon

Það er alveg deginum ljósara að þú verður að plana utanlandsferð á meðan þau eru í Júgóslavíu. Annars er ekki hægt að endurtaka leikinn. Ég legg svo á og mæli um að Hálfdán Ingólfur muni biðja um að fara til Kúbu :-)

Berglind (IP-tala skráð) 16.7.2012 kl. 22:41

5 Smámynd: Laufey B Waage

Jessssssss. Kúbuferð er minn æðsti ferðadraumur.

Laufey B Waage, 16.7.2012 kl. 23:37

6 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

Já Kúpa er ljúf.  Varaderó til dæmis. 

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 17.7.2012 kl. 09:24

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband