15 atriði sem þú vissir ekki um mig

Þegar ég sé e-ð sem kalla má Spurningu dagsins í fjölmiðlum, hef ég dáldið gaman af því að líta upp í loftið - áður en ég sé svar viðkomandi - og svara sjálf.

Í einu af blöðunum sem detta í póstkassann í hverri viku, hafa um hríð verið greinar þar sem þekktir einstaklingar eru fengnir til að tjá sig undir fyrirsögninni: 15 atriði sem þú vissir ekki um mig (það stendur reyndar 15 hlutir, en ég tek ekki þátt í þessari ofnotkun orðsins hlutir).

Þegar ég sá þetta fyrst, leit ég auðvitað upp í loftið og rifjaði upp 15 atriði sem ég hélt þið vissuð ekki um mig. Þetta var á annatíma, svo ég mátti ekki vera að því að blogga þá, en nú er lag. Vafalaust koma allt önnur atriði upp í hugann núna, en ég "kíli áða". Verst að ég hef lengi verið svo opin og einlæg, að einhver ykkar vitið eflaust margt af þessu. Er þá ekki upplagt að þið gerið líka getraun úr þessu og spyrjið ykkur sjálf: Hve mörg af þessum 15 atriðum vissi ég um Laufeyju? Heiðarleg svör óskast.

15 atriði sem þú vissir ekki um mig: 

1) Ég hef þann kæk að plokka límmiða af hinu og þessu (t.d. lyfjapakkningum) og rúlla þeim upp.

2) Þegar ég var eins til fimm ára lék ég mér daglega við bestu vinkonur mínar, sem heita Jóhanna og Sigríður. Ég var að verða unglingur þegar ég uppgötvaði að það sá þær aldrei neinn nema ég.

3) Eitt sinn bjó ég í seglskútu í næstum 4 vikur.

4) Systir Halldórs Kiljan Laxness kenndi mér á píanó þegar ég var 12-16 ára.

5) Ég get í smáatriðum lýst íbúðinni sem ég bjó í þegar ég var hálfs árs til eins og hálfs árs. Líka íbúðinni á neðri hæðinni.

6) Ég er þrígift.

7) Ég er þekkt fyrir að keyra eins og bankaræningi á flótta, en hef þó aldrei valdið tjóni.

8) Ég er óhemju ómannglögg - og það hefur versnað með árunum. En er svo heppin að maðurinn minn er mjög mannglöggur og getur bent mér á fólk sem ég á að þekkja betur en hann.

9) Á seinni árum hef ég verið skelfilega hrædd við kviksetningu (vá hvað það var erfitt að láta þetta flakka).

10) Mér þykir afskaplega vænt um rónana. Fer stundum inn í "Austurríki" og kaupi bjór handa þeim. Nýt þess að setja pening í súpueldhús Samhjálpar.

11) Árum saman vonaðist ég eftir að vera beðin um að leika jólasvein og/eða fjallkonu. Hvorugt gerðist og ég skil ekki ennþá af hverju.

12) Ég átti eitt sinn "míns eigins" kött. Hún hét Víóletta.

13) Ég er næstum aldrei í brjóstahaldara. Á tvo inni í skáp sem ég keypti einhvern tíman á síðustu öld. - Hef hvorugan þeirra þvegið. 

14) Ég var oft kölluð Lubba þegar ég var krakki - og líka stundum eftir að ég varð fullorðin.

15) Ég hef flogið í svifdreka. Bæði sem farþegi og líka pínulítið ein og sér. 

Góða helgi gott fólk. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Skemmtilegt. Ég vissi nú ekki margt, bara 2, 6 og 10 Ansi töff þetta nr. 15 Og svo eigum við sameiginlegt nr. 13, ég er alltaf í þunnum toppum en aldrei í haldara

Margrét Birna Auðunsdóttir, 11.7.2012 kl. 23:25

2 identicon

Vissi allt nema um Laxness-systur, fjallkonudrauminn og köttinn Víolettu. 12 af 15, er það ekki nokkuð gott?

Berglind (IP-tala skráð) 16.7.2012 kl. 22:38

3 Smámynd: Laufey B Waage

Mjög gott Berglind.

Takk Bidda.

Laufey B Waage, 16.7.2012 kl. 23:36

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband