Lífsnautnafjötrar - eða frelsi

Ég er haldin fíkn sem lýsir sér m.a. í því að ef ég borða sætindi, þá get ég ekki hætt fyrr en mér er orðið verulega illt. Annað hvort fer þetta sukk fram í leyni, eða þá að ég verð mér til mikillar skammar og ofbýð umhverfinu með dónaskap (stundum hvort tveggja).
Um leið og áétinni vanlíðan linnir lítillega eru tveir möguleikar í stöðunni: Annað hvort held ég sukkinu áfram eða þá ég fer í líkamlegt, tilfinningalegt og félagslegt fráhvarf, sem mjög erfitt og tímafrekt er að losa sig út úr.
Velji ég fyrri möguleikann fitna ég mjög hratt og ét á mig alls kyns sjúkdóma og kvilla sem fara hratt vaxandi og þarf ég því mikla aðstoð frá heilbrigðiskerfinu. - Þeim mun meiri aðstoð eftir því sem ég eldist, því öll fíkn versnar með aldrinum.
Ég veit að ég er ekki ein um þessa fíkn. Ég þykist líka vita að á elliheimilum landsins finnist fólk sem þarfnast aðhlynningar sem það þyrfti kannski ekki á að halda ef það hefði tímanlega fundið lausnina sem ég hef fundið. Þetta fólk væri jafnvel ennþá fært um að sjá um sig sjálft heima hjá sér.

Mér dettur þó ekki í hug að fara fram á það að hætt verði að bjóða upp á sætabrauð með kaffinu á elliheimilum. Hvorki fyrir mína hönd né þeirra sem nú búa á þessum heimilum. Mér finnst sjálfsagt að þeir sem njóta þess að borða sætindi sér og öðrum að skaðlausu, eigi val um það.

Ég er svo heppin að ég get virkilega notið þess að fá mér glas af víni með góðum mat í góðum félagsskap af og til. Án vandræða. Ég veit að það eru ekki allir svona heppnir, - en af hverju í ósköpunum eru sumir svona mikið á móti því að fólk á elliheimilum eigi þetta val?

Jú jú, auðvitað veit ég að afleiðingar virks alkóhólisma eldra fólks geta verið subbulegri og meira áberandi en afleiðingar matarfíknar, - en það á líka við um virka fíkn yngra fólks.
Af hverju reynum við ekki að hafa meiri jákvæð áhrif á neyslu og viðhorf yngra fólks - frekar en að skerða frelsi og lífsnautnir gamals fólks?
Það er skelfilegt að sjá hve margt ungt fólk (og sumir eldri jú jú) drekkur frá sér vit og rænu helgi eftir helgi - oft með hræðilegum afleiðingum.
Mér finnst líka skelfilegt að sjá hve mörgum foreldrum ungra barna finnst sjálfsagt og eðlilegt að drekka vín á meðan þau eiga að bera ábyrgð á sínum börnum. Af hverju skiptum við okkur ekki af því?

- Auðvitað veit ég af hverju við skiptum okkur ekki af því.
Við einfaldlega fáum engu ráðið um það hvað ungu foreldrarnir gera heima hjá sér, á barnum, á ferðalögum o.s.frv.
Hins vegar GETUM við (miðaldra fólkið sem rekur stofnanir og setur lög og reglur í landinu) ráðið þvi hvað má og ekki má á elliheimilum. Og þurfum við þá endilega að notfæra okkur þá GETU og það VALD - og halda sem fastast í þær reglur sem starfsfólkið heldur að valdi sem minnstu veseni, burt séð frá löngun og líðan þeirra sem þar búa - og eiga ekki annara kosta völ? Fólk sem býr á elliheimili býr þar í flestum tilfellum vegna þess að það er ekki fært um að sjá um sig sjálft heima hjá sér (margir þeirra geta t.d. hvorki gengið né keyrt eftir mat og drykk). Er það ekki næg skerðing á lífsgæðum, auk allrar annarar lífsnautnaskerðingar sem fylgir því að vera gamall?

Látum af þessari fáránlegu forræðishyggju (eða beinum henni í aðrar og betri áttir) - og leyfum gömlu fólki að fá sér köku með kaffinu og/eða vín með matnum - á meðan það veldur ekki sambýlisfólki þeirra stórum skaða.

Lifið heil.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ásthildur Cesil Þórðardóttir

100% sammála þér Laufey mín.  Leyfum gamla fólkinu okkar, ég er orðin ein af þeim að sukka ef það vill, vera gamalt og lúið í friði, eða lifa í botn.  Það er þeirra val.

Ásthildur Cesil Þórðardóttir, 13.8.2012 kl. 00:49

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband