Færsluflokkur: Bloggar
7.8.2009 | 23:49
Sól og regn.
Mín var í Vatnaskógi um síðustu helgi. Ég hef komið þangað mjög oft seinustu 8 árin, en aldrei áður hef ég gist þar í tjaldi. Nú var komið að því. Ég mætti á staðinn með mitt litla sæta skátatjald (sem ég keypti fyrir 11 árum og var að tjalda í 3ja sinn) og svaf þar eins og engill í 3 nætur. Eiginmaðurinn hafði á orði þegar hann hjálpaði mér að pakka tjaldinu saman á mánudaginn, að aldrei áður hefði hann séð skraufaþurran tjaldbotn við samantöku.
Enda féll ekki einn einasti dropi úr lofti alla helgina. Það var meira að segja svo þurrt, að staðurinn varð vatnslaus á tímabili.
Þar sem ég sat að spjalli við aðrar eftirlegukindur síðdegis á mánudeginum, - vakti ég athygli á góðveðurskrákunni mér, sem bæri greinilega ábyrgð á þessari brakandi blíðu, með því að tjalda loksins. Viðmælendur mínir sögðust myndu sjá til þess að ég fengi aldrei aftur gistingu inni í húsi um verslunarmannahelgi.
En helgin leið án þess að ég fyndi hjá mér snefil af löngun til að fara í göngutúr. Í sólskini, logni og hita er eins og maður sé hálf dasaður og vilji bara njóta þess að dingla sér í rólegheitum.
En í gærmorgunn (fimmtudag) um leið og byrjaði að rigna, langaði mig í göngutúr. Eiginmanninum fannst hugmyndin góð - og við keyrðum upp í Hvalfjörð, klædd ullarbolum, flíspeysum, regnfötum og gönguskóm. Vorum í ham þegar við lögðum bílnum og æddum útí náttúruna í brjáluðu roki og rigningu. Það var æði. Holdvot og veðurbarin þegar við komum aftur í bílinn.
Gistum á Glym í nótt og fórum svo í annan göngutúr á bakaleiðinni. Þá var aðeins lygna, en rosaleg rigning.
Í báðum þessum gönguferðum var ég svo upptekin af því hvað ég er heppin að búa á Íslandi. Tilfinning sem ég fæ reyndar alltaf þegar ég geng um íslenska náttúru. Í næstum því öllum veðrum. Ég var líka upptekin af því hvað tilfinning fyrir góðu veðri getur verið afstæð.
Legg ekki meira á ykkur.
Góða helgi gott fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
14.7.2009 | 22:19
Gola á Garðsskaga
Eiginmaðurinn missti það út úr sér nýverið, að hann hefði aldrei komið út á Garðsskaga. Það fannst mér öldungis ófært. Mamma var mér innilega sammála - og við ákváðum að drífa okkur með hann hið snarasta.
Þegar stóru börnin mín voru á barnsaldri fórum við varla svo til mömmu, að þau báðu ekki um að fara út á Garðsskaga (mamma býr í Keflavík). Ég man sérstaklega eftir einni ferðinni, þegar ömmunni og börnunum fannst nauðsynlegt að hafa nógu marga poka meðferðis undir kuðunga, skeljar, steina og aðra "dýrgripi". Undirritaðri fannst þá og finnst enn margt unaðslegra við fjöruferðir en ruslasöfnun.
Þegar við mættum á staðinn var háflóð. Ég horfði á mömmu með hneykslunarsvip og spurði "átti þetta ekki að vera fjöruferð?"
Í gær fórum við svo "með eiginmanninn". Buðum ömmudrengnum (eldri) með. Hann varð mjög glaður þegar ég sagði honum að það væru tveir vitar á staðnum. Í þetta skiptið kíkti ÉG á flóðatöfluna í mogganum. Treysti mömmu ekki til þess, þó hún sé reyndar jafn minnug á umrædda "fjöruferð á flóði" og ég.
Við útbjuggum mikið og gott nesti. Það er að vísu gott kaffihús á Garðskaga (Flösin), en hagsýnar húsmæður eru samar við sig, sér í lagi á krepputímum. Auk þess var ég ennþá stödd í hinum útlenska sumarhita sunnudagsins og tilkynnti að það yrði sko fjöru-pikknikk. Kippti með mér þunnri peysu til málamynda, en var annars bara á stuttbuxum og hlýrabol. Bar meira að segja á mig sólarvörn á leiðinni í bílnum.
"Það er oft dáldil gola úti á Garðsskaga, viltu ekki fá hjá mér síðbuxur" spurði mamma, þegar við sóttum hana. Ég hélt nú ekki. Maður fer ekki á kraftgallanum í pikknikk um hásumar.
"Golan" á Garðskaga var ísköld og á fleygiferð. Svo mikilli ferð, að mamma rifjaði upp söguna af Þórólfi vini sínum, sem útskýrði skjótfenginn skalla sinn á þá leið að vindurinn í Oddskarði hefði verið á fleygiferð þegar hann átti leið þar um. Við fórum marga hringi í kring um vitana, en "golan" blés sem brjáluð væri allan hringinn. Drengnum fannst það ekki stórmál, því aðalatriðið væri að fara upp í vitana. En þeir voru þá harðlæstir og engin leið að fá þá opnaða.
Við hlýjuðum okkur á kaffibollum INNI á Flösinni og héldum síðan áfram leitinni að logninu. Ekki var það á fjörusandinum, svo mikið var víst.
Við vorum að verða úrkula vonar, þegar við duttum loksins niðrá það undir einum húsvegg. Mikið var nestið nú gott. Og blessuð sólin skein svo glatt að ég fór meira að segja smá stund úr peysunni, sem ég hafði að sjálfsögðu farið í um leið og ég fór út úr bílnum.
Það var engu rusli safnað í þessari "fjöruferð".
Seinni myndin er ekki frá Garðsskaga, heldur úr vikugamalli 101-pikknikk-ferð.
Lifið heil.
Bloggar | Breytt 15.7.2009 kl. 00:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.7.2009 | 12:37
Nýr nágranni
Mér finnst ómaklega vegið að nýja nágrannanum mínum í mbl í dag.
Ég hef nokkrum sinnum séð blessaða konuna fyrir utan tjaldið sitt og verð að segja að hún virðist hin vænsta manneskja. Og ég hvorki veit til - né get ímyndað mér - að hún hafi verið neinum til ama hér í hverfinu. Að vísu gæti henni orðið kalt ef hún verður þarna ennþá eftir að frystir í vetur, - en hún virðist hafa bein í nefinu til að bjarga sér, svo ég hef öngvar áhyggjur af henni.
Fyrir mörgum mánuðum las ég fréttir af því að setja ætti upp gáma fyrir útigangsfólk hér í hverfinu. Það er skemmst frá því að segja að gámabúar þessir hafa ekki á nokkurn hátt verið mér eða mínum nágrönnum til ama.
Ég er ekki að segja að ég hafi einhvern sérstakan áhuga á að fylla nágrennið af útigangsfólki. En mannlífið er misjafnt og öll eigum við okkar tilverurétt. Fjölbreytilegt mannlíf finnst mér af hinu góða og ég vorkenni fólki sem vill hafa allt sitt nágrenni sterilt og eftir stöðluðu normi. - Kvartar svo um leið og eitthvað bregður út af.
"Biðjum skaparann að leiða okkur á braut umburðarlyndis, þolinmæði, góðvildar og kærleika" (úr AA-bókinni).
Njótið sumarsins gott fólk.
Kom sér fyrir í kúlutjaldi | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:40 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.6.2009 | 11:00
Hægritun
Ég lærði vélritun - eða hraðritun eins og mig minnir að sagt hafi verið - í síðasta bekk grunnskóla. Þá var ég svo heppin að hafa lært á píanó í nokkur ár, - og píanófingrasetningartæknin nýttist mér mjög vel í vélrituninni. Á miðsvetrarprófi þurfti maður að hafa 140 slög rétt til að fá 10. - Ég var með 210 slög rétt.
Þessa tækni hef ég nýtt mér oft og mikið síðan, - við ritvél og tölvu, - en mest þó við píanóið.
En nú er bleik brugðið. Hægri höndin í fatla - alveg fram að fingrum. Og úlnliðssvæðið æpir og veinar ef ég reyni að snúa hnúunum upp. - Liggur bara á hlið, með litla fingur neðst.
Þegar nemendur mínir hafa meiðst á annari höndinni, hef ég lagt hart að þeim að vinna vel með hinni höndinni á meðan. Og nú kemur vel á vondan. Ég sem ætlaði að sitja við hljóðfærið nokkra tíma á dag í allt sumar, - ég hef engan vegin geð í mér til að vera með einhverjar vinstri handar æfingar. Ber því við að ég sé á allt öðrum stað í mínum æfingum. Nú æfi ég mig í að hugsa og sjá hljómana heildrænt, án þess að gera greinarmun á hægri og vinstri (í alvöru).
Og nú sit ég við tölvuna. Ætlaði að blogga helling nú í júní. Var komin með slatta af góðum hugmyndum, sem bíða betri tíma. Byrjaði þennan pistil til þess eins að segja ykkur hvað ég er að upplifa mig minniháttar þegar ég pikka eins og hálfviti með tilviljunarkenndum fingrum vinstri handar, - og er a.m.k. 17 sinnum lengur að. Dáldið fáránlegt þegar maður þarf að halda svona stíft í við hugann, sem er auðvitað langt langt á undan fingrunum.
Nei ég fíla mig ekkert minni háttar. Mér finnst ég ógessla dugleg að láta mig hafa það. Aldrei að vita nema ég dembi á ykkur daglegum vinstri handar pistlum.
Farið vel með ykkur elskurnar.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
22.6.2009 | 15:52
Hópslys á heimili
Á fimmtudaginn var kl. 19.00 stóð ég við eldavélina og ætlaði að fara að bera á borð þessa dýrindis rauðsprettu, sem ég hafði verið að elda ásamt ofnbökuðu grænmeti.
Heimasætan hafði látið renna í bað, sem hún ætlaði í fyrir matinn, - en gleymdi sér yfir tölvunni inni í stofu.
Skyndilega hleypur hún æpandi og ó-nei-andi í átt að baðherberginu. Mér snarbrá og tók undir mig stökk til að vita hvað væri eiginlega um að vera.
Það sem ég hafði ekki hugmynd um, var að flætt hafði upp úr baðkarinu - og á þessu augnabliki vantaði aðeins örfáa sentimetra upp á að flóðið næði að eldavélinni. Sem þýddi það, að í fyrsta skrefi - á ullarsokkunum á sleipum flísunum - flaug ég á hausinn í flóðinu - og bar fyrir mig hægri höndina eins og vera ber (ómeðvitað að sjálfsögðu).
Ég fann strax að úlnliðurinn var langt frá því að vera eins og hann átti að sér. Enda kom svo í ljós að hann er brotinn.
En í fluginu heyrði ég dynk, eins og heimasætan væri að hlaupa á vegg. Hún vissi ekki sjálf - í öllu fátinu - hvort sú væri raunin, en nöglin var farin af einni alblóðugri tá (hún hékk reyndar á bláþræði eins og ég veit ekki hvað).
Ég stóð rassblaut og rennblaut við vaskinn og kældi úlnliðinn meðan eiginmaðurinn þurrkaði upp mesta flóðið.
Svo fór hann með okkur á slysó þessi elska. Þetta leit auðvitað mjög illa út fyrir hann.
Þegar ég var komin í gips, horfði ég á fremur óhuggulegar aðfarir við tá heimasætunnar. Það þurfti ekki bara að taka nöglina af, heldur líka sauma naglbeðinn undir nöglinni, sem hafði rifnað í sundur. Hún mætti samt í vinnu daginn eftir - og vann þrjár ellefu tíma vaktir á sínum veitingastað um helgina þessi hetja.
En ég sit bara heima í mínu sumarfríi og hjóla hvorki lang og mikið, né heldur spila ég mikið á mitt píanó, eins og til stóð.
En ég skal verða heil á ný. - Ég skal.
Njótið sumarsins elskurnar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:15 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
12.6.2009 | 10:00
Kreditkort - seinni hluti.
Eftir frægðarförina til Færeyja og Noregs (sjá síðustu færslu) tók ég upp fyrri viðskiptahætti með ávísanahefti og reiðufé að vopni. Hef þó alltaf átt kreditkort og gripið til þess á völdum stundum ÁN allrar misnotkunar.
Í fyrra eða hittifyrra tók ég svo eftir því að eiginmaðurinn átti alltaf einhverjar ferðaávísanir uppi í erminni. Ég setti upp öfundarstútinn og spurði af hverju hann fengi svona ávísanir en ekki ég. "Ég skipti við miklu betra kreditkortafyrirtæki en þú", sagði minn.
Eftir örlitla undanlátssemi við nýávanda frestunaráráttuna, skipti ég úr visa yfir í mastercard. En Adam var ekki lengi í Paradís. Mér rétt svo tókst að safna mér fyrir ferð til Ísafjarðar, áður en hringt var frá bankanum - og mér tilkynnt að þeir hjá mastercard væru hættir með ferðaávísanirnar.
"Allt í lagi" sagði ég. "Það vill svo bráðheppilega til að þeir voru að hringja í mig frá amerikan express og bjóða mér kreditkort þar sem maður safnar helling af ferðapunktum. "Kortið sem kemur þér út" var skrifað stórum stöfum utan og innan á skrifstofuna, þegar ég mætti á staðinn til að virkja nýja kortið.
Fer svo með bílinn í skoðun á þriðjudaginn. - "Við tökum ekki amerikan express" sagði afgreiðslustúlkan á þeim bænum. Ég stóð stjörf smá stund. Það hríslaðist um mig einhver hrollur og mér fannst ég allt í einu komin 23 ár aftur í tímann. Var ekki alveg viss um hvort ég væri í Færeyjum eða Noregi. "Af hverju í ósköpunum" stundi ég loks út úr mér á lýtalausri íslensku. "Þeir eru svo dýrir, það eru mörg fyrirtæki sem taka þetta ekki" sagði stúlkan. Og það hef ég sannreynt á þessum þremur dögum.
Svo nú er mín með 1 debit- og TVÖ kreditkort í kortaveskinu. Ekki alveg í stíl við minn karakter. - En ég SKAL safna punktum fyrir ferð til Parísar, Kaupmannahafnar eða Barcelona. - Eða alla vega til Ísafjarðar. Mestu skiptir að hann Bónus vinur minn tekur american express. - Ennþá.
Það liggur við að ég sakni gömlu góðu ávísanaheftanna.
Góða helgi gott fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
10.6.2009 | 11:35
Kreditkort. - Gömul saga og ný.
Þegar kreditkortin hófu innreið sína til landsins, greip ég strax til minnar sígildu andstöðuþrjóskuröskunnar - og harðneitaði að fá mér svona kort. "Ekki nóg með að þessir íslendingar þurfi alltaf að eignast strax allt það nýjasta á markaðinum, - heldur þurfa þeir líka að temja sér að kaupa allt sem þeir mögulega geta, rúmum mánuði áður en þeir eiga fyrir því" tautaði ég - og ætlaði sko ekki að vera ein af þeim. Fannst ég lifa góðu lífi án þess, - gat ótrúlega oft farið með börnin út að borða á námslánunum.
Sumarið 1986 vill svo til að vinkona mín ein er að vinna um borð í Norrænu og má bjóða einum farþega í fría ferð. Var svo elskuleg að bjóða undirritaðri. Ég var ekki lengi að þiggja boðið, var meira að segja svo heppin að eiga aðra góða vinkonu í Noregi, sem var upplagt að heimsækja í viku, áður en ég héldi áfram með skipinu til baka.
En ég átti auðvitað tvö börn sem ég hvorki gat né vildi skilja eftir á Íslandi. Og ef ég notaði alla mína peninga (sem áttu að fara í framfærslu þann mánuðinn) til að borga Norrænu-fargjaldið þeirra, - átti ég auðvitað ekki krónu eftir til að borga mat né nokkuð annað í ferðinni.
"Þetta er ekkert mál, þú færð þér bara kreditkort" sögðu allir, - og bættu því við að í nágrannalöndunum væri ekki bara hægt að nota kortið til að borga allt alls staðar, - heldur væri meira að segja hægt að nota það til að taka peninga út úr banka.
Svo ég braut odd af oflæti mínu og fékk mér kreditkort.
Við fórum í land í Færeyjum, hvar okkur bar að vera frá föstudegi fram á mánudag, meðan skipið skutlaði nokkrum farþegum til Danmerkur. Spennandi.
Ég var búin að bóka gistingu á farfuglaheimili í Þórshöfn - og þar byrjaði ég á að sveifla kortinu (gistingu helgarinnar bar að greiða fyrirfram). En á þeim bænum höfðu þeir ekki tileinkað sér þennan nútímalega greiðslumáta. Svo ég varð að draga fram afganginn af aleigunni, sem ég hafði verið svo forsjál að skipta í danskar krónur áður en við lögðum af stað, - og þær krónur smellpössuðu fyrir gistingunni.
Þá var að bregða sér í "kauffélagið". Ég hafði hugsað mér að birgja mig upp af hollri og góðri matvöru sem við gætum maulað inn á herbergi eftir þörfum alla helgina. - Þá átti sko ekki að byrja á því að misnota kreditkortið í eitthvert skyndibitarugl. En þetta stóra og nýtískulega kauffélag hafði heldur ekki tileinkað sér nútíma viðskiptahætti, - vildi ekki sjá kortið mitt.
Við röltum áfram niðrí bæ og fórum inn í allar matvöruverslanir sem við sáum, en engin vildi sjá mitt nýja og glæsilega kreditkort. Ég leitaði uppi næsta banka til að taka út peninga, en þá var auðvitað nýbúið að loka öllum bönkum.
Á þessum tímapunkti voru börnin orðin öskrandi af hungri (þau voru að vísu of vel upp alin til að öskra), svo ég ákvað að brjóta odd af oflæti mínu og fara með þau inn á næsta skyndibitastað. En það var alls staðar sama sagan. Færeyingar könnuðust ekkert við kreditkort. Með einni undantekningu þó.
- Við enduðum á Hótel Hafnia. Settumst þar við dúkað borð og létum smókingklædda þjóna með hvítan dúk á handleggnum færa okkur dýrindis steikur.
Veturinn á eftir sagði sonur minn 8 ára af og til: Mamma manstu þegar við vorum í Færeyjum - og höfðum ekki efni á að borða annars staðar en á dýrasta hótelinu. Íróníski húmorinn þroskaðist snemma hjá þessari elsku.
Á bryggjunni í Bergen var markaður sem börnin urðu agndofa yfir og ákváðu að eyða þar norskum krónum sem faðir þeirra hafði gefið þeim. Drengurinn sá þar lukkutröll og spurði mig hvað orðið lukka þýddi. Ég útskýrði.
Ég hélt að Norðmenn væru aðeins forframaðri í nútíma greiðsluháttum, en því var ekki að heilsa. Ég þurfti að komast með börn og farangur að lestarstöðinni (vinkonan bjó í Osló), en gat hvorki notað kortið til að borga strætó né leigubíl. Ég reyndi að útskýra fyrir leigubílstjóra einum góðlegum farir mínar ekki sléttar, á einhverri blöndu af ensku, íslensku og hinum norðurlandamálunum. Hætti ekki að væla fyrr en hann bauðst til að aka okkur endurgreiðslulaust. Þegar við vorum sest inn í bílinn benti sonurinn á lukkutröllið og brosti stoltur. "Nú skil ég, þetta virkar" sagði hann.
Lestarferðin var löng. Ég gat auðvitað ekki keypt neinar samlokur né ávexti til að maula á leiðinni, - heldur var okkur vísað inn í lúxusvagninn, þar sem við borðuðum lúxusmáltíðir greiddar með kreditkorti.
Um kvöldið ætlaði ég að bjóða vinkonu minni upp á drykk á næstu krá, en enn og aftur var kortinu hafnað. Við þvældumst alla leið niðri miðbæ, - en árangurslaust. Komum jafn þyrstar heim.
Morguninn eftir fór ég í norskan banka og tók út böns af peningum sem dugðu mér restina af ferðinni.
Þessi gamla saga er orðin svo löng, að nýja sagan verður að bíða þangað til á morgunn eða hinn.
Bíðið spennt.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
31.5.2009 | 16:15
Skepnuskapur og dýrasambýli.
Örverpið mitt hefur oft vælt yfir því að hafa aldrei fengið að hafa gæludýr á heimilinu. "Systkini mín fengu að hafa gæludýr, en ekki ég" var algengasta setningin í téðu væli.
Fyrir utan þá staðreynd að undirrituð kann einfaldlega ekki að meta náin samskipti við dýr, - þá hefur þessi grimmd hennar við örverpið beinlínis með gæludýrahald systkina hennar að gera.
Að gullfiskum frátöldum (sem örverpið fékk jú líka að prófa), þá byrjaði "skepnuskapurinn" með tveimur hömstrum. Þegar annar þeirra dó, varð sorgin hjá einkasyninum svo gífurleg, að móðir hans hafði ekki brjóst í sér til annars en að bæta honum missinn upp með öðrum hamstri. Svo dó hinn hamsturinn - og sorgarsagan endurtók sig, ásamt samskonar sárabótum. Þannig gekk það til uns mér tókst - við fráfall fimmta eða sjötta hamsturins - að sannfæra soninn um að það borgaði sig ekki að kaupa fleiri skammlífa hamstra til að syrgja.
Þá tókst frumburðinum að fá móður sína til að samþykkja kanínuhald. Þegar kanínan sú var búin að naga í sundur uppáhaldspilsið mitt ásamt tveimur uppáhaldsbolunum mínum, - skutlaði ég henni snarlega aftur til síns heima, - til frænda míns í Mosfellsdalnum.
Ekki löngu seinna hringdi frumburðurinn frá Ísafjarðarflugvelli. Það var búið að kalla út í vél - og hún var með kettling í fanginu, sem hún gat með engu móti lagt frá sér. Ég hafði nákvæmlega engan umhugsunarfrest - og tók ekki sjensinn á að stúlkan kæmi ekki heim úr þessu páskafríi, - og sagði henni því bara að drífa sig út í vél med det samme. Tók svo á móti stúlku með kött í fangi á Reykjavíkurflugvelli.
Þegar ég var orðin svefnlaus og taugaveikluð, eftir að kötturinn hafði - auk annarar óæskilegrar hegðunar - nokkrum sinnum stokkið ofan úr gluggakistu og lennt á sofandi mér, - fleygði ég tveimur börnum og einum ketti inn í minn rauða Daihatsu Charade, keyrði eins og bankaræningi á flótta til frænku minnar í Þverárhlíðinni, - og tilkynnti börnunum það skýrt og skilmerkilega á leiðinni að kötturinn yrði skilinn þar eftir, - og að aldrei framar yrði neinn skepnuskapur á mínu heimili. Við það hef ég staðið.
En það er eins og frumburðurinn hafi aldrei jafnað sig á þessari grimmilegu höfnum móðurinnar á köttum og öðrum kvikindum. Hún fékk sé kött um leið og hún byrjaði að búa með sínum eiginmanni, sem er vel að merkja sá mesti exem- og ofnæmisgemlingur sem ég hef kynnst. Og það virðist vera ættgengt, - því bæði sonur hennar og stjúpsonur hafa greinst með kattaofnæmi. Svo köttur var ekki á hennar heimili nema fyrsta búskaparárið.
En hún gefst ekki upp á að bæta sér það upp með öðrum skepnum. Ég hef ekki tölu á öllum hömstrunum, naggrísunum, kanínunum, stökkmúsunum - og hvað öll þessi kvikindi heita sem hún hefur keypt "handa syninum".
Það næstnýjasta er; að eitt sinn þegar hún fór að kaupa mat handa naggrísnum Lovísu, vakti annar naggrís óskipta athygli hennar. Hún beinlínis soðaðist að honum. Ástæðan fyrir þessu "sogi" kom fljótlega í ljós. Naggrísinn var eiginlega ekki til sölu, þar sem hann var augljóslega greindarskertur og líklegast með einhverjar fleiri fatlanir - og gat því ekki farið á neitt venjulegt heimili. Þessi útskýring bræddi hjarta dóttur minnar gjörsamlega, Henni tókst að sannfæra gæludýraverslunareigandann um að nákvæmlega þessum naggrísi gæti hvergi liðið betur en á hennar heimili. Svo nú búa þar - auk stökkmúsanna Regans og Gorbatjoffs (sjá efstu mynd) - naggrísirnir Lovísa og Díana.
En hún hefur aldrei geta sætt sig við kattaleysið. Eftir endalausan lestur um kattaofnæmi, hefur hún komist að þeirri niðurstöðu að kattaofnæmisgrísir hafa ofnæmi fyrir flestum köttum, en ekki öllum. Og hún hefur að sjálfsögðu einsett sér að finna þennan eina kött, sem hvorki sonurinn, stjúpsonurinn né eiginmaðurinn hafa ofnæmi fyrir.
Þá ber það við, að unglingslæða föður hennar gýtur nokkrum kettlingum. Í ljós kemur að einn kettlinganna er staurblindur ásamt einhvejum fleiri fötlunum. Og að sjálfsögðu ákveður dóttir mín að nákvæmlega þetta eintak af ketti (sjá mynd), sé hinn eini rétti. Í gær kom svo faðir hennar með köttinn og skildi hann eftir til prufu. Ég kom við í Hlíðunum nú áðan - og strákarnir voru allir farnir að klóra sér, hnerra og sjúga upp í nefið. Þegar ég vakti athygli á því, - sagði dóttir mín bara - með óslökkvandi stjörnuglampa í augunum; er hún ekki yndisleg!!
Af mínum alkunnu andstyggilegheitum tautaði ég með sjálfri mér að yndislegheitin hefðu nú kannski eitthvað með fötlun dýrsins að gera. Bætti því við - svona aðeins meira upphátt; hvort ég mætti ekki benda á þetta sambýli fyrir fjölfötluð dýr, ef ég frétti af fleiri eintökum. Hún sagði jú.
Þar hafiði það. Ég get verið milligöngumaður ef ykkur vantar viðeigandi stofnun fyrir andlega eða líkamlega fatlaðar skepnur.
Lifið heil.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
22.5.2009 | 13:48
Sorg og gleði.
Gleði og sorgir skiptast á í þessu lífi. Þessa dagana er ég að upplifa hvort tveggja í einu.
Á þriðjudaginn var lennti 18 ára gamall frændi minn í hræðilegu vinnuslysi, sem dró hann til dauða á rúmum sólarhring. Það ná auðvitað engin orð að lýsa þeirri gífurlegu sorg sem heltekur fólk á slíkri stundu. Þó get ég ekki annað en verið þakklát fyrir þann sálarstyrk sem hans allra nánustu hefur greinilega verið gefið.
En á meðan hann frændi minn lá á milli heims og helju, - fór ég á flugvöllinn að sækja ísfirska ömmudrenginn minn og mömmu hans. Svona yndislegu barni fylgir bara tóm gleði og hamingja. Afkomendunum hér á höfuðborgarsvæðinu var auðvitað smalað saman í ljúffenga fjölskyldumáltíð.
Ömmu í Reykjavík gengur mjög vel að spilla drengnum. Hún bauð honum að sjálfsögðu á huggulegt kaffihús í iðandi mannlífinu í gær. En þegar átti að skella drengnum í vagninn og labba með hann heim, mótmælti hann hástöfum. Amman gat að sjálfsögðu ekki látið hann orga úr sér lungun niður Bankastrætið og vestur Austurstrætið og alla Vesturgötuna, - svo að sjálfsögðu tók hún hann strax upp úr vagninum og hélt á honum alla leiðina heim. Ég meina - hver á að spilla börnum, ef ekki ömmurnar?
Nú í morgunn fórum við svo í sund. Ferlega gaman.
Það er sko á hreinu, að drengurinn verður varla farinn að tala, þegar hann byrjar að hrópa í tíma og ótíma; ég vil fara til ömmu í Reykjavík, ég vil fara til ömmu í Reykjavík.
Góða helgi gott fólk.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2009 | 11:12
Jákvæð þjóðarsál.
Í góða veðrinu á föstudaginn sagði ég við konuna í fiskibúðinni að ég hefði aldrei haft áhuga á júróvisíon-söngvakeppninni hér á árum áður. Á seinustu árum hefði áhuginn vaxið lítillega og ég hefði aldrei verið eins rosa spennt og núna.
"Það er ekkert skrýtið" sagði fisksalinn (eða "fiskseljan") þá. "Við erum öll óvenjuspennt núna. Það er bara af því að nákvæmlega núna hefur þjóðin þörf fyrir að sameinast um eitthvað létt og skemmtilegt og alvörulítið".
Nákvæmlega - hugsaði ég. Þetta er málið.
Í gær var veðrið (sem leikur alltaf lykilatriði í líðan okkar íslendinga) ennþá betra en á föstudaginn, - og árangur okkar í keppninni ennþá betri en nokkur þorði að vona.
Var það ekki nákvæmlega þetta sem þjóðarsálin þurfti?
Til hamingju Íslendingar.
Og njótið lífsins í veðurblíðunni.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (4)