Flygillinn

IMG_1037Áratugum saman hef ég af og til verið spurð af hverju í ósköpunum ég eigi ekki flygil. Til skamms tíma svaraði ég því alltaf til - bæði í gamni og alvöru - að ég vildi ekki kaupa mér flygil fyrr en ég hefði efni á Bösendorfer. - Sem er af sama standard og Steinway, - bara með miklu fegurri tón og betri áslátt fyrir minn smekk. 

Fyrir nokkrum árum prófaði ég svo flygilinn í kirkjunni minni, sem er af ódýrri gerð (Samick), en ég uppgötvaði mér til mikillar ánægju að mér finnst miklu betra að spila á hann en alla ódýra flygla sem ég hef prófað, - meira að segja miklu betra en alla miðlungs- og jafnvel rándýra flygla. Einhverra hluta vegna myndaðist eitthvert "tilfinningalegt samband" á milli okkar og mér fannst hann strax vera flygillinn minn. Meira að segja gerðist það einu sinni, að ég var beðin um að spila á Bösendorfer í sal útí bæ - og ég kom við í kirkjunni á leiðinni til að æfa mig, - og varð alveg undrandi á því hve munurinn var lítill.

IMG_1057En stuttu eftir að ég byrjaði að æfa mig í kirkjunni, viðraði þá nýráðinn tónlistarstjóri kirkjunnar áhuga sinn á því að auka tónleikahald í kirkjunni, en til þess þyrfti alvöru tónleikaflygil. Bað ég þá sóknarnefnd um að ganga ekki fram hjá mér ef og þegar Samickinn yrði seldur.

Svo gerist það fyrir ekki löngu að Bösendorfer-flygill er til sölu í Tónastöðinni (nei það gerist sko ekki á hverju ári). Ég var ekki sein á mér að benda tónlistarstjóranum á það - hann tók málið upp á sóknarnefndarfundi - og til að gera langa sögu stutta, þá keypti kirkjan Bösendorferinn og ég Samickinn (jú það er satt, - ég er sjálf í sóknarnefnd)

 

IMG_1054Ég verð reyndar að viðurkenna að ég átti mjög erfitt með að taka þessa ákvörðun. Ekki nóg með að alþýðukonu í vesturbænum munar um nokkur hundruð þúsund, auk þess sem hún hefur í seinni tíð verið undirlögð af alls konar gigt, - heldur var ég andvaka yfir endalausum pælingum um hvernig ætti ég að koma honum fyrir þannig að ég nyti þess að spila á hann án þess að hann væri eins og risastórt skrýmsli sem dómineraði stofuna algjörlega.

Viðurkenndi svo þá staðreynd að ég er bara hrædd við breytingar - og reynsla mín er sú að ég verð alltaf ánægð þegar ég hef kýlt á það sem ég er hrædd við. Auk þess sem ég reyni alltaf að fara eftir því mottói mínu að það er betra að sjá eftir því sem maður gerir, heldur en því sem maður gerir ekki.

IMG_1056

Nýlega byrjaði ég svo í miklu betri meðferð við gigtinni, sem er þvílíkt að svínvirka - svo ég kýs að trúa því að ég geti setið við hljóðfærið og spilað mér til ánægju um ókomna tíð. 

Flygillinn mætti svo á staðinn nú um kvöldmatarleytið. Og þvílíkur munur. Ég komst í þvílíkt uppnám að ég næstum því fór að gráta. Það er ekki hægt að lýsa tilfinningunni sem fylgir því að spila á svona "alvöru" hljóðfæri heima hjá sér. Það vildi fólkinu í húsinu til happs að ég þurfti að rjúka á kóræfingu, - annars hefði ég setið við hljóðfærið í allt kvöld. Og nú er komið fram yfir miðnætti.

Vá hvað ég hlakka til að koma heim úr vinnunni á morgunn og setjast við flygilinn minn.

IMG_1059

Og þó hann taki pláss og sé kannski dóminerandi í stofunni. Er eitthvað sem ég vil frekar að taki meira pláss og sé meira dóminerandi. Ónei. Ég er meira að segja svo heppin að sambýlingar mínir eru mér sammála - og samgleðjast mér innilega.

Svo er alltaf hægt að rúlla honum til og frá og prófa nýjar staðsetningar. Bæði upp á þægindin og lúkkið. Auk þess sem stofurnar á alþýðuheimilum í vesturbænum gerast nú ekki mikið stærri.

Verst að ég tími varla að selja frábæra píanóið mitt. 

Settist niður við þessa bloggfærslu til að skrifa mig frá uppnáminu, - en ég er enn alveg skæ hæ. 

Held ég ætti að loka tölvunni og reyna að lesa mig í svefn.

Ykkar einlægur flygileigandinn ofurhamingjusami. 

P.s. Haldiði svo ekki að hann sé fallega vínrauður (eða dumbrauður) í kaupbæti. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Dásemd og dýrð! Til hamingju mín kæra Vel að þessu komin!

sara vilbergsdóttir (IP-tala skráð) 28.2.2014 kl. 00:47

2 Smámynd: Faktor

Ég ítreka hamingjuóskir mínar til þín með þennan flotta flygil :)

Bestu kveðjur úr Hæstakaupstaðnum.

Faktor, 28.2.2014 kl. 00:52

3 identicon

Innilega til hamingju "elsku barnið mitt" njóttu vel og lengi. Og liturinn maður lifandi............ segi ekki mér.

Þórunn frænka þín (IP-tala skráð) 28.2.2014 kl. 08:34

4 identicon

Bestu hamingjuóskir elsku Laufey. Það er mikið til í mottóinu þínu að betra sé að sjá eftir því sem maður gerir, heldur en því sem maður gerir ekki - svo er bara að njóta augnablik síns, áður en það verður að minningu 🎹

Vigdís (IP-tala skráð) 28.2.2014 kl. 12:03

5 Smámynd: Margrét Birna Auðunsdóttir

Yndislegt :D

Margrét Birna Auðunsdóttir, 28.2.2014 kl. 21:57

6 Smámynd: Laufey B Waage

Takk elskurnar :*

Laufey B Waage, 3.3.2014 kl. 22:33

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband